Sport

Fékk eiginhandaráritun á óléttubumbuna

Sindri Sverrisson skrifar
Barnið kemur í heiminn á næstu dögum og spurning hvort foreldrarnir glaðbeittu velji nafn sem á einhvern hátt vísi í Novak Djokovic, sem glaður mundaði pennann.
Barnið kemur í heiminn á næstu dögum og spurning hvort foreldrarnir glaðbeittu velji nafn sem á einhvern hátt vísi í Novak Djokovic, sem glaður mundaði pennann. Getty/Graham Denholm

Novak Djokovic fékk nokkuð óvenjulega beiðni þegar hann hitti fjölmiðla og aðdáendur á Brighton-ströndinni í Melbourne eftir sigurinn á Opna ástralska mótinu í tennis.

Ólétt kona, sem á von á sér eftir aðeins tvo daga, bað nefnilega Djokovic um eiginhandaráritun á magann. Djokovic tók vel í það og eftir að hafa snert maga aðdáandans gætilega teiknaði hann lítið hjarta og skrifaði nafnið sitt.

Djokovic á sjálfur tvö börn og sagði fyrr í dag það hafa tekið sinn toll að vera löngum stundum í burtu frá fjölskyldu sinni, sérstaklega nú þegar kórónuveirufaraldurinn geysar og fjölskyldan getur ekki ferðast með honum.

„Stundum er eins og hjartað mitt brotni í mél. Ég þarf að endurskoða dagskrána hjá mér miðað við síðasta ár, og árin þar á undan. Auðvitað er það þannig að tíminn í burtu frá fjölskyldunni minni hefur áhrif á mig.

Ég þarf að sjá til hvað hægt er að gera vegna þeirra reglna og banna sem eru í gangi um allan heim. Það að geta ekki ferðast með fjölskyldunni er mér mjög erfitt,“ sagði Djokovic.

Novak Djokovic með verðlaunagripinn á ströndinni.Getty/Graham Denholm

Djokovic ræddi við fleiri aðdáendur á ströndinni og klappaði hundi eins þeirra á milli þess sem hann stillti sér upp með Norman Brookes verðlaunagripinn, sem Serbinn hefur nú unnið níu sinnum. Hann hefur nú unnið 18 risamót og er tveimur titlum frá meti Rogers Federer og Rafaels Nadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×