Málarekstur sem þessi ávallt þungbær

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verið er að meta hvernig brugðist verður við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á aðalkröfur fjögurra yfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra um að greiða þeim laun í samræmi við samkomulag sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri gerði við þá árið 2019.

Þetta segir Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur hjá ríkislögreglustjóra, í svari við fyrirspurn mbl.is, og bætir við að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að áfrýja málinu.

Ekki í samræmi við lagatúlkun 

„Málarekstur þar sem starfsfólk og samstarfsmenn eiga í hlut er ávallt þungbær en ljóst er að niðurstaða málsins var ekki í samræmi við lagatúlkun og kröfugerð íslenska ríkisins í málinu,“ segir í svarinu.

„Nú er verið að yfirfara niðurstöðu dómsins í samráði við fjármálaráðuneytið sem einnig var stefnt í málinu, sem og embætti ríkislögmanns sem rak málið af hálfu ríkisins. Verið er að meta til hvaða viðbragða verði gripið, svo sem hvort farið verði fram á að málinu verði áfrýjað en fjármálaráðuneytið fer með fyrirsvar fyrir íslenska ríkið hvað varðar túlkun kjarasamninga og starfsmannamál opinberra starfsmanna,“ segir þar einnig.

Húsnæði ríkislögreglustjóra.
Húsnæði ríkislögreglustjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Endurröðun í launaflokka en ekki hækkanir

Bent er á að í sumum fjölmiðlum hafi verið sagt að um launahækkanir hafi verið að ræða. Hið rétta sé að um endurröðun í launaflokka var að ræða með breytingu á heildarsamsetningu launa þar sem yfirvinna hafi verið felld inn í grunnlaunasetningu sem ekki hafi verið í samræmi við lög, kjara- og stofnanasamninga að mati íslenska ríkisins.

Hærri grunnlaunasetning í þessum tilvikum hafi síðan haft þau áhrif að lífeyrisréttindi aðila í B-deild LSR hækkuðu verulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert