Eldur í endurvinnslu á Reyðarfirði

Svartan reyk lagði upp frá haugnum.
Svartan reyk lagði upp frá haugnum. Ljósmynd/Aðsend

Eldur logar á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar á Reyðarfirði. Slökkvilið Fjarðabyggðar er á svæðinu og vinnur að því að slökkva eldinn. Töluverðan reyk leggur frá svæðinu yfir byggð og eru íbúar beðnir um að hafa glugga á húsum sínum lokaða og vera ekki á ferð um svæðið að óþörfu.

Í samtali við mbl.is segir Þórður Vilberg Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar, að ekki sé vitað hver eldsupptök voru en eldurinn hafi breitt úr sér upp úr hádegi í brotajárnshaugi þar sem bílhræ og annað drasl voru.

„Það logaði talsverður eldur, en slökkviliðsmenn voru fljótir að ná tökum á honum,“ segir Þórður og bætir við að slökkvistarfi sé við það að ljúka. Ekki sé talið að eldurinn hafi náð að breiða úr sér.

Björgvin Þórarinsson, íbúi á Reyðarfirði, segir í samtali við mbl.is að aðdáunarvert sé hve greiðlega slökkvistarfið hafi gengið. Þetta sýni mikilvægi þess að hafa atvinnumenn í slökkviliði, en allt þar til álverið á Reyðafirði var byggt var slökkvilið aðeins mannað fólki í hjáverkum. 

Uppfært 14:16
Búið er að slökkva eldinn.

Ljósmynd/Björgvin Þórarinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert