Handbolti

Hugsað til barna­fjöl­skyldna: „Það mun ein­hver græða peninga“

Sindri Sverrisson skrifar
Jim Gottfridsson í glímu við íslenska landsliðið. Hann grínaðist með að miðar á úrslitaleiki HM væru hræódýrir.
Jim Gottfridsson í glímu við íslenska landsliðið. Hann grínaðist með að miðar á úrslitaleiki HM væru hræódýrir. EPA-EFE/Bjorn Larsson Rosvall

Leikmönnum sænska landsliðsins blöskrar miðaverðið sem greiða þarf til að sjá síðustu leikina á HM karla í handbolta á sunnudaginn.

Ljóst er að sænska landsliðið mun spila í Tele2 Arena í Stokkhólmi á sunnudaginn, þegar úrslitin á HM ráðast. Öll liðin sem komin eru í 8-liða úrslit munu nefnilega spila þar því leikið verður um 7. og 5. sæti, auk leikjanna um brons- og gullverðlaun.

Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá því að hver leikmaður sænska landsliðsins fái fjóra miða í höllina en að margir þeirra vilji fleiri miða og þurfi þá að greiða tæplega 30.000 krónur fyrir stykkið.

„Þetta er algjör tombóluprís sem þeir eru að bjóða,“ sagði Jim Gottfridsson, stærsta stjarna sænska liðsins, kaldhæðinn.

Lukas Sandell kaupir þrjá miða aukalega: „Þetta kostar peninga. En mér er fyrst og fremst hugsað til barnafjölskyldna sem eiga erfitt með að kaupa svona dýra miða. Þetta er hár verðmiði,“ sagði Sandell.

Jonathan Carlsbogård er með sína miða klára. „Áhuginn er mikill og þá er hægt að ýta verðinu upp. Hvort að það sé rétt eða rangt? Svona eru viðskiptin. Það mun einhver græða peninga og það er gaman fyrir þann eða þau,“ sagði Carlsbogård.

Aftonbladet segir að gera megi ráð fyrir því að HM skili sænskum handbolta 15 milljónum sænskra króna, eða yfir 200 milljónum íslenskra króna. Fyrr í dag höfðu 20.000 af 22.000 miðum á úrslitadaginn selst og er búist við að það verði uppselt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×