Ekki verjandi að hverfa frá lögbundnum aðgerðum

„Það er mat stofnunarinnar að óverjandi sé að halda hjörð …
„Það er mat stofnunarinnar að óverjandi sé að halda hjörð lifandi sem líkur eru á að sé smituð og getur því leitt til frekari útbreiðslu veikinnar,“ segir í tilkynningunni. mbl.is/Árni Sæberg

Vegna andmæla við niðurskurði á sauðfé á bænum Syðri-Hofdölum vill Matvælastofnun árétta að hún telur líklegt að riðusmit sé til staðar í hjörðinni og því ekki verjandi að hverfa frá lögbundnum aðgerðum sem leitt getur til frekari útbreiðslu veikinnar.

„Margar smitleiðir voru á milli fjárins sem umgekkst hrútinn sem greindist með riðu og allrar hjarðarinnar, sérstaklega í sauðburði en þá er smithætta mest. Þó riða hafi ekki greinst í fénu sem umgekkst hrútinn beint er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið smitað,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Tilgreindar eru eftirfarandi ástæður fyrir því að hjörðin er líklega smituð af riðu:

1. „Meðgöngutími riðu er að jafnaði tvö til þrjú ár, en getur farið upp í fimm ár. Meðgöngutími er sá tími sem líður frá því að kind fær í sig smit og þar til einkenni koma fram. Aðeins 10 mánuðir voru liðnir frá því smitaði hrúturinn kom í afmarkaðan hóp hjarðarinnar, litlar líkur eru því á að einkenni riðusmits sé komið fram í fénu.“

2. „Næmi prófsins (ELISA) sem notað er til að greina riðusmit er getur verið svo lágt sem 66%, þess vegna finnst ekki riðusmit í öllum kindum þótt þær séu smitaðar. Næmið fer m.a. eftir því hversu langur tími er liðinn frá smiti. ELISA-prófið er það besta sem völ er á. Ef það greinir riðusmit þá er það staðfest með öðru sértækara prófi en ef ELISA-prófið greinir ekki riðu þá getur kindin samt sem áður verið smituð en engin leið til að kanna það nánar.“

Matvælastofnun bætir við að greining gripanna í október hafi einungis verið gerð í rannsóknarskyni. Upphaf riðusmitsins á bænum hafi verið þekkt og því einstakt tækifæri til að skoða hvort smitefnið fyndist í eitlum eða heila eftir svona skamman smittíma.

„Þetta eru rök Matvælastofnunar sem fram koma í umsögn hennar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna andmæla við niðurskurði. Andmælin voru í kjölfarið dregin til baka. Það er mat stofnunarinnar að óverjandi sé að halda hjörð lifandi sem líkur eru á að sé smituð og getur því leitt til frekari útbreiðslu veikinnar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert