Væri ótrúlegt að skrifa þessa sögu

Erling Haaland ásamt Phil Foden.
Erling Haaland ásamt Phil Foden. AFP/Lindsey Parnaby

Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, er spenntur fyrir því að mæta Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu á morgun.

Man. City á möguleika á því að vinna þrennuna á tímabilinu þar sem liðið er þegar búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og á fyrir höndum bikarúrslitaleik og úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu gegn Inter Mílanó aðra helgi.

Síðasta liðið sem vann slíka þrennu var einmitt Man. United árið 1999, og vilja grannarnir því ólmir koma í veg fyrir að Man. City nái þeim áfanga.

„Tilfinningin er mjög góð. Við erum auðvitað búnir að vera að eltast við þetta allt tímabilið þannig að þegar við unnum ensku úrvalsdeildina var það mikill léttir.

Nú eigum við tvo úrslitaleiki fyrir höndum og það eina sem við getum einbeitt okkur að eru þessir tveir úrslitaleikir áður en við höldum í sumarfrí,“ sagði Haaland á blaðamannafundi í dag.

Hann hefur skorað 52 mörk í 51 leik í öllum keppnum á tímabilinu og vill ólmur hjálpa liðinu að halda áfram að skrifa söguna.

„Það væri ótrúlegt að skrifa þessa sögu. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að skrifa hana. En þetta er auðvitað ekki auðvelt, þetta eru tveir úrslitaleikir gegn tveimur góðum liðum sem munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir það.

Þau munu mæta ákveðin til leiks, þau verða reiðubúin og við verðum að vera upp á okkar besta því ef við spilum sem best við getum eigum við mjög góða möguleika á því að áorka því að vinna þrennuna,“ bætti Haaland við.

Úrslitaleikur Manchester-liðanna hefst klukkan 14 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert