Árás við ræðismannsskrifstofu Frakklands

AFP

Sádi-Arabi særði öryggisvörð við ræðismannsskrifstofu Frakklands í borginni Jedda. Samkvæmt yfirlýsingu frá yfirvöldum í Sádi-Arabíu og franska sendiráðinu er öryggisvörðurinn á sjúkrahúsi en hann er ekki í lífshættu. 

Sádiarabískir sérsveitarmenn yfirbuguðu árásarmanninn strax en ekki kemur fram í fyrstu fréttum hvort hann er særður. Fyrr í dag voru þrjár manneskjur drepnar í Nice. 

Lögregla í Mekka, en borgin Jedda er í héraðinu, upplýsti um þjóðerni árásarmannsins en ekki þolandans. Aðeins að áverkarnir séu minniháttar.

Franska sendiráðið í Riyad fordæmir árásina harðlega og hvetur Frakka sem búsettir eru í Sádi-Arabíu um að fara varlega. 

Reiði múslíma í garð Frakklands hefur aukist mjög að undanförnu eftir að ádeiluritið Charlie Hebdo endurbirti skopteikningar af Múhameð spámanni og síðan mynd af forseta Tyrklands í gær. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segir að ekki komi til greina að hefta tjáningarfrelsið í Frakklandi enda einn af hornsteinum frönsku stjórnarskráarinnar. Múslímar fagna í dag fæðingardegi Múhameðs spámanns, sem hét fullu nafni Abū al-Qāsim Muḥammad ibn ʿAbd Allāh ibn ʿAbd al-Muṭṭalib ibn Hāshim. Hann fæddist árið 570 í Mekka og lést 8. júní árið 632 í Medínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert