Erfitt að koma í veg fyrir glannalega hegðun

Sérstöku fjármagni hefur verið veitt í að bæta aðbúnað á svæðinu í kringum Dettifoss til þess að minnka átroðning við náttúruminjar og til þess að gera ferðamönnum betur grein fyrir þeirri hættu sem leynist á svæðinu, segir Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður. 

Nýlega birtist myndband af ferðamönnum við Dettifoss sem fóru glannalega nálægt fossinum og tóku myndir. Litlu mátti muna að illa færi eins og sást á myndbandinu, sem fylgir fréttinni. 

„Það var nú búið að vera í kortunum, meira að segja áður en þetta kom nokkurn tímann til, sem sagt að fara í að bæta afmarkanirnar á þessu svæði. Við fengum sérstakan styrk til þess, svæðið var náttúrulega áður á rauðum lista út af átroðningi,“ segir Guðmundur við mbl.is. 

Dettifoss. Þar er augljós hætta, sem margir virðast ekki átta …
Dettifoss. Þar er augljós hætta, sem margir virðast ekki átta sig á, ótrúlegt en satt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Augljós hætta

Guðmundur segir að erfitt sé að stöðva glannalega hegðun á svæðinu við Dettifoss einmitt vegna þess að hættan við fossinn sé svo augljós. Þannig má auðveldlega höfða til almennrar skynsemi fólks og treysta á að það fari ekki of glannalega – sumum sé þó einfaldlega ekki treystandi.

„Það er erfitt að eiga við þetta, við erum með afmarkanir þarna á einhverjum gönguleiðum sem sumir virða og aðrir ekki. Á þessum stað er hættan kannski pínu augljós, það er ekki mjög falin hætta þarna,“ segir Guðmundur og bætir við að kannski sé falin hætta fólgin í grjóthruni á svæðinu, sem þó er varað við.

Þá segir Guðmundur að erfitt sé að afmarka svæðið við Jökulsá á Fjöllum þar sem mismikið sé í ánni. Leiðinlegt sé að afmarka svæði mjög ofarlega á bakkanum þegar lítið er í ánni, en varasamt að hleypa fólki of langt að árbakkanum þegar mikið er í henni. 

„Það er alltaf verið að skamma okkur fyrir hvað við erum vond í þjóðgarðinum fyrir að banna öllum allt,“ segir Guðmundur og hlær. 

„Það er nú samt bara ekki þannig,“ bætir hann við.

Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður.
Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert