Oftar en einu sinni í geðrof vegna ADHD-lyfja

Rítalín Uno er eitt þeirra lyfja sem ávísað er við …
Rítalín Uno er eitt þeirra lyfja sem ávísað er við ADHD hér á landi, en það inniheldur virka efnið metýlfenídat sem er örvandi. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Dæmi eru um að venjulegt fjölskyldufólk, sem hefur fengið ADHD-greiningu og tekur inn þær skammtastærðir af ADHD-lyfjum sem því er ávísað, upplifi geðrofseinkenni og þurfi að leggjast inn á geðdeild þess vegna. Er þá um að ræða aukaverkun lyfjanna. Þeim hefur fjölgað, sem leita á geðdeildir vegna geðrofseinkenna í tengslum við notkun ADHD-lyfja.

Þá eru dæmi um að sömu einstaklingar hafi oftar en einu sinni lent í geðrofi vegna notkunar örvandi ADHD-lyfja. Í þeim tilfellum hefur fólk sóst eftir því að fá lyfin aftur eftir að hafa náð bata og bættum lífsgæðum með notkun þeirra. 

Þetta segir Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir bráðageðdeildar Landspítalans, í samtali við mbl.is. „Við höfum séð venjulegt fjölskyldufólk sem hefur lent í verulegum vanda út af svona veikindum,“ segir Halldóra og á þar við geðrof. Það var Stöð tvö sem vakti fyrst athygli á málinu.

„Við höfum líka áhyggjur af því að fólk noti stundum meira af lyfjunum en ráðlagt er. Það er eitt af því sem við ætlum að reyna að skoða, hvort verið sé að ávísa meiru en hámarksskömmtum til dæmis.“

Greinilegt að sumir eru viðkvæmari en aðrir

Halldóra segir það ekki liggja fyrir hvaða einstaklingar það eru sem helst upplifa geðrofseinkenni í tengslum við notkun ADHD-lyfja eða hvers vegna, en leyfi hefur fengist fyrir rannsókn, þar sem þær upplýsingar verða meðal annars teknar saman.

Allur gangur sé á því hvort fólki hafi neyslusögu eða ekki, hvort það hafi tekið lyfin stutt eða í langan tíma, jafnvel frá barnsaldri. Greinilegt sé að sumir séu viðkvæmari fyrir lyfjunum en aðrir. Langflestir eigi það þó sameiginlegt að hafa fengið ADHD-greiningu og verið ávísað lyfjum í kjölfarið. Vert er að taka fram að hér er einungis átt við fullorðið fólk en ekki börn.

„Við höfum séð fólk með neyslusögu og fer í geðrof sem er að nota þessi lyf. Við höfum séð fólk sem er ekki með neyslusögu sem fer í geðrof og er að nota þessu lyf. Við höfum séð fólk sem hefur notað þessi lyf í þrjá mánuði og fer í geðrof og fólk sem hefur notað þessi lyf í nokkur ár og fer í geðrof. Þannig það er allur gangur á þessu og við sjáum bara hvað kemur út úr rannsókninni,“ segir Halldóra. Vænta má að niðurstöðurnar liggi fyrir næsta vor.

Einstaklingar hafa í auknum mæli leitað á geðdeildir vegna geðrofseinkenna …
Einstaklingar hafa í auknum mæli leitað á geðdeildir vegna geðrofseinkenna eftir notkun ADHD-lyfja. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tengir fjölgun ávísana við fjölgun tilfella

Ávísunum á örvandi lyf við ADHD hér á landi hefur fjölgað á síðustu árum. Fjölgunin nemur um fimmtungi á milli áranna 2020 og 2021. Halldóra segist tengja fjölgun einstaklinga sem upplifa geðrofseinkenni vegna lyfjanna við þessa fjölgun ávísana.

„Við tengjum það saman. Það eru 20 ár síðan ég hitti fyrst einstakling með geðrofseinkenni af völdum ADHD-lyfja eða metýlfenídats og það var ekki á Íslandi. Þannig að þetta hefur verið þekkt.“

Nokkur örvandi lyf sem innihalda virka efnið metýlfenídat eru notuð hér á landi við ADHD. Til að mynda Concerta, Rítalín og Medikinet. Þá hefur líka orðið vart við geðrofseinkenni í kjölfar notkunar lyfsins Elvanse sem inniheldur virka efnið lísdexamfetamín.

Ekki eftirlit með greiningum 

Fyrir liggur að fullorðnir hafa greinst með ADHD í auknum mæli. Margir fá ávísað lyfjum í kjölfarið.

Aðspurð hvort hún telji að mögulega sé verið að ofgreina fólk með ADHD, sem gæti verið með önnur undirliggjandi vandamál sem birtast sem ADHD-einkenni, segir Halldóra erfitt að meta það.

„Það er ekkert eftirlit með þessu og engir gæðastaðlar. Það þyrfti að skoða mjög vandlega. Það gæti verið að við séum að greina mjög marga. Auðvitað er það er það rétt að einbeitingarskortur eða athyglisbrestur hrjáir okkur flest á einhverjum tímapunkti og það eru líka einkenni annarra geðsjúkdóma. Ef fólk er kvíðið á það til dæmis oft erfitt með að einbeita sér.“ 

Hún segir greiningartækin þó eiga að geta greint þarna á milli, svo framarlega sem fólk er heiðarlegt þegar það kemur í greiningu.

Sérstakt ADHD-teymi fyrir fullorðna var sett laggirnar á Landspítalanum árið 2013 en það var fært inn á inn á heilsugæsluna á síðasta ári. Halldóra segir að þar sé farið eftir mjög stífu verklagi við greiningar, en biðin sé löng. Þeir sem treysti sér ekki til að bíða leiti gjarnan annað. „Auðvitað vinnur flestallt fagfólk, sem gerir þessar greiningar, vinnuna sína vel, en kannski er einn og einn sem gerir það ekki.“

Mikilvægt að hætta notkun komi einkenni fram

Halldóra segir að flestir þeir einstaklingar sem hafi komið inn á geðdeild með geðrofseinkenni hafi verið komnir með ADHD-greiningu og ættu því að þurfa á lyfjum að halda.

Ef einstaklingur er ekki með ADHD ætti hann hins vegar að vera með nægan styrk boðefnisins dópamíns í heilanum, en örvandi ADHD-lyf auka meðal annars virkni dópamíns. Kenningin er sú að fólk með ADHD sé með of lítið dópamín á ákveðnum svæðum í heilanum, eða það flytjist burt áður en það nær að virka sem skyldi. Í réttu magni ættu lyfin að virka róandi á þessa einstaklinga og gera styrk dópamíns eðlilegan.

Margir vilja fá ADHD-lyfin aftur eftir að hafa náð bata …
Margir vilja fá ADHD-lyfin aftur eftir að hafa náð bata vegna bættra lífsgæða með notkun þeirra. mbl/Arnþór Birkisson

„Þeir sem fara í geðrof yfirleitt eða eru með geðklofa eða aðra geðrofssjúkdóma, þeir eru með of mikið dópamín og það veldur því að fólk fer í geðrof,“ útskýrir Halldóra.

Komi geðrofseinkenni fram, er því mikilvægt að hætta notkun lyfjanna.

„Um leið og þetta kemur fram á að hætta á þessum lyfjum og annnað hvort leita annarra leiða eða nota lyf sem ekki eru í þessum örvandi flokki. ADHD-lyf hjálpa mjög mörgum og geta aukið lífsgæði fólks gríðarlega. Ég er alls ekki á móti ADHD-lyfjum en eins og með önnur lyf, þá þurfum við að vera vakandi fyrir aukaverkunum.“

Fólk vill fá lyfin aftur eftir geðrof

Halldóra segir erfitt að svara því hvort flestir nái sér að fullu eftir geðrof í tengslum við notkun ADHD-lyfja.

„Það getur vel verið að fólk sé viðkvæmt fyrir geðrofssjúkdómum í grunninn. Svo tekur það þessi lyf og þau kveikja á þessu kerfi. Meirihluti þeirra sem ég hef séð hefur náð sér. Vandamálið er að margt af þessu fólki virðist ekki alltaf tengja við þetta og vill fá lyfin aftur,“ segir Halldóra og á þar við fólk sem hefur kannski upplifað verulega bætt lífsgæði með lyfjunum.

„Þá getum við lent í vandræðum og fólk hefur komið oftar en einu sinni. Svo hefur fólk verið að fá þessi lyf sem er í grunninn með undirliggjandi geðsjúkdóma og jafnvel geðrofssjúkdóma og þá ýta þau enn frekar undir geðrof.“ Að sögn Halldóru ættu þeir einstaklingar aldrei að vera á örvandi ADHD-lyfjum yfir höfuð. „Það er frábending að fólk sé með geðrofssjúkdóm,“ ítrekar hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert