Hætta við að loka tveimur kjarnorkuverum

Þýskaland mun áfram starfrækja 2 af 3 kjarnorkuverum í landinu.
Þýskaland mun áfram starfrækja 2 af 3 kjarnorkuverum í landinu. AFP

Stjórnvöld Þýskalands munu áfram starfrækja tvö af þremur kjarnorkuverum í landinu en yfirvöld þar í landi segja í yfirlýsingu þess efnis að svo verði þar til í apríl á næsta ári.

Árið 2000 náðu þýska ríkisstjórnin og forsvarsmenn stærstu orkufyrirtækjanna í landinu samkomulagi um að leggja niður 19 kjarnorkuver í landinu í nokkrum áföngum. Reiknað var með að síðasta kjarnorkuverið yrði lagt niður eigi síðar en árið 2021.

Efnahagsráðherrann, Robert Habeck, greindi frá þessari stefnubreytingu í dag.

Um er að ræða kjarnaofninn Isar 2 í Bæjaralandi annars vegar og Neckarwestheim, norður af Stuttgart, hins vegar.

Tala um markvissa árás

Fyrr í dag var greint frá því að evr­ópsk stjórn­völd grunuðu Rússa um að hafa framið skemmd­ar­verk á gas­leiðsl­un­um Nord Stream 1 og 2, sem liggja um Eystra­salt og flytja gas frá Rússlandi til Þýska­lands.

Heimildir þýskra miðla herma að um mark­vissa árás hafi verið að ræða.

Dönsk, sænsk og þýsk yf­ir­völd hafa hafið rann­sókn á þrem­ur lek­um sem greind­ust í gas­leiðsl­un­um í gær en mælistöðvar í Dan­mörku og Svíþjóð greindu spreng­ing­ar neðan­sjáv­ar um svipað leyti í grennd við lek­ana.

Dmitrí Peskov, talsmaður rúss­neskra stjórn­valda, sagði að ekki væri hægt að úti­loka neitt þegar blaðamenn spurðu hann hvort skemmd­ar­verk hefðu valdið lek­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka