Lærissveinar Alfreðs í 8-liða úrslit

Juri Knorr setti níu mörk fyrir Þýskaland í kvöld.
Juri Knorr setti níu mörk fyrir Þýskaland í kvöld. AFP/Janek Skarzynski

Alfreð Gíslason og lærissveinar hans í Þýskalandi eru komnir í 8-liða úrslitin á heimsmeistaramóti karla í handknattleik eftir sigur á Hollandi, 33:26, í milliriðli þrjú í Póllandi í kvöld. 

Jafnræði var á milli liðanna til að byrja með en um miðjan fyrri hálfleikinn fór Þýskaland að ná tökum á leiknum og hálfleikstölur voru 15:12 Þjóðverjum í vil. Þýska liðið var einnig mun sterkara í síðari hálfleik og vann samtals sjö marka sigur. 

Juri Knorr dró að vanda vagninn í þýska liðinu en hann setti níu mörk. Kay Smits var markahæstur í liði Hollands með sex mörk. 

Staðan í milliriðli þrjú er því:

1. Þýskaland - 8 stig
2. Noregur - 8 stig
3. Serbía - 4 stig
4. Holland - 4 stig
5. Katar - 0 stig
6. Argentína - 0 stig. 

Lukas Jorgensen fagnar marki í kvöld.
Lukas Jorgensen fagnar marki í kvöld. AFP/Andreas Hillergren

Danir gott sem komnir áfram

Danmörk vann níu marka sigur, 33:24 á Bandaríkjunum í milliriðli fjögur í kvöld. Ansi margt þarf nú að gerast til þess að Danmörk fari ekki í 8-liða úrslitin en Króatar eru tveimur stigum á eftir Dönum með mun verri markatölu. Þannig má segja að Danir séu gott sem komnir í 8-liða úrslitin líkt og Egyptar. 

Lukas Lindhard Jorgensen var markahæstur í liði Dana með átta mörk en Samuel Hoddersen var markahæstur í liði Bandaríkjanna með fimm mörk. 

Staðan í milliriðli fjögur er því eftirfarandi:

1. Egyptaland - 8 stig
2. Danmörk - 7 stig
3. Króatía - 5 stig
4. Bahrain - 4 stig.
5. Belgía - 0 stig
6. Bandaríkin - 0 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert