Fótbolti

Sú besta fagnar 25 ára afmæli sínu í dag | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ætli Ada hafi spilað lagið „Afmæli“ með Á Móti Sól í tilefni dagsins?
Ætli Ada hafi spilað lagið „Afmæli“ með Á Móti Sól í tilefni dagsins? Daniela Porcelli/Getty Images

Hin norska Ada Hegerberg – eða Ada Martine Stolsmo Hegerberg – fagnar 25 ára afmæli sínu í dag. Þrátt fyrir ungan aldur er hægt að færa ágætis rök fyrir því að hún sé einn allra besti leikmaður allra tíma.

Hegerberg spilar fyrir stórlið Lyon í Frakklandi og verður því samherji Söru Björk Gunnarsdóttir næstu tvö árin allavega. Hegerberg hefur skorað yfir 300 mörk á ferli sínum, unnið Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og unnið níu titla með Lyon.

Þá var hún fyrst kvenna til að hljóta Ballon d‘Or verðlaunin árið 2018, verðlaun sem Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa einokað karla megin undanfarin ár. Hegeberg var valin besti leikmaður Evrópu bæði 2016 og 2017. Þá valdi BBC hana sem besta kvenkyns leikmann í heimi á síðasta ári.

Hegerberg var í norska landsliðinu sem nældi í silfur á Evrópumótinu 2013 og liðinu sem datt út fyrir Englandi í 16-liða úrslitum HM 2015.

Hegeberg var aðeins 15 ára gömul þegar hún spilaði sinn fyrsta leik fyrir Kolbotn í norsku úrvalsdeildinni. Þaðan lá leiðin til Stabæk og svo Turbine Potsdam í Þýskalandi. Það var svo sumarið 2014 sem hún gekk í raðir Lyon og hefur ekki litið um öxl síðan.

Hún er því miður á meiðslalistanum sem stendur eftir að hafa slitið krossbönd í hné í upphafi árs. Það gæti því verið að við þurfum að bíða aðeins eftir að sjá samvinnu hennar og Söru Bjarkar á vellinum. Það er þó ljóst að ef Sara Björk vill leggja upp sem flest mörk þá er um að gera að koma boltanum á markamaskínuna frá Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×