Telja sig með alla sem komu að málinu í haldi

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Eggert Jóhannesson

„Við teljum okkur vera með sönnunargögn í málinu þótt þau séu missterk,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir húsleitum lokið að sinni og að lögregla telji sig vera með alla þá sem komu að Rauðagerðismálinu í haldi ef miðað er við þau sönnunargögn sem lögregla hefur undir höndum. Næstu dagar munu að mestu fara í yfirheyrslur og úrvinnslu gagna. 

Hann segir að lögregla fái betri mynd á málið með hverjum deginum. Ekki síst sé það með skoðun símagagna. Sú vinna krefst nokkurrar vinnu af starfsfólki embættisins og er tímafrek.   

Enn að reyna að átta sig á umfanginu 

Spurður hvers vegna svo margir séu í haldi segir Margeir að verið sé að setja saman hver  hlutur hvers og eins er í málinu. „Við erum enn að kanna hvort þetta séu einstaklingar, fámennur hópur eða skipulagðir hópar sem hafa átt í einhverjum deilum,“ segir Margeir. 

Hvers vegna teljið þið ykkur vera með byssumanninn í þessum hópi?

„Því að rannsóknin bendir til þess. “ segir Margeir.

Munu gera ráðstafanir 

Heimildir herma að hótanir hafi gengið manna á milli eftir manndrápið í Rauðagerði fyrir rúmri viku. Margeir segist ekki kannast við það en áréttar að lögregla muni stíga inn í ef slíkt berist lögreglu til eyrna. „Ef lögreglan telur að almennum borgurum stafi ógn af hópum eða einstaklingum þá gerum við viðeigandi ráðstafanir,“ segir Margeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert