Tottenham ósátt við frestunina

Tottenham átti að mæta Arsenal á morgun.
Tottenham átti að mæta Arsenal á morgun. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem félagið lýsir yfir undrun sinni að leik liðsins við Arsenal, sem átti að fara fram á morgun, hafi verið frestað.

Arsenal sótti um frestun á leiknum vegna kórónuveirusmita, meiðsla og leikmanna sem eru á Afríkumótinu. Vildi félagið því meina að það væri ekki með nógu marga leikmenn til taks.

„Það kemur okkur gríðarlega á óvart að beiðni Arsenal hafi verið samþykkt. Við vorum dæmdir úr leik í Sambandsdeildinni þar sem við gátum ekki fært leik við Leicester. Síðan var leikurinn færður að lokum þegar Leicester bað um það.

Reglan átti ekki að snúa að leikmönnum sem eru fjarverandi af öðrum ástæðum en Covid. Það er mikilvægt að það sé samræmi hvernig við fylgjum reglunni. Enn og aftur er þetta óásættanlegt fyrir stuðningsmenn sem ætluðu að ferðast,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert