Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrsta fjórðungi ársins var neikvæð um 4.793 milljónir króna, samanborið við 4.263 milljóna halla á sama tímabili árið áður. Áætlun gerði ráð fyrir að afkoman yrði neikvæð um 2.894 milljónir og niðurstaðan er því 1.899 milljónum lakari en gert var ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 2.134 milljónir. Þetta kemur fram í rekstraruppgjöri A-hlutans, þ.e. starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, sem var birt í dag.

Laun og launatengd gjöld A-hluta borgarinnar voru á tímabilinu samtals 21.362 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir 20.531 milljónum. Laun og launatengd gjöld á fyrstu þremur mánuðum ársins voru því 831 milljón króna yfir áætlun.

Eignir A-hlutans námu 240,2 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 236,5 milljarða í lok síðasta árs. Eigið fé lækkaði um 4,8 milljarða og nam 87 milljörðum í lok fyrsta fjórðungs. Eiginfjárhlutfallið lækkaði því úr 38,9% í 36,3%.

Álagningarhlutfall útsvars í Reykjavíkurborg er 14,52%, sem er lögbundið hámark.