Fjórðungur félaga á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins en önnur félög lækkuðu. Meirihluti þeirra lækkuðu um ríflega prósent. OMXI10 vísitalan lækkaði um 1,12% í viðskiptum dagsins.

Mestu hækkun dagsins mátti finna hjá Origo en félagið hækkaði um 2,44% í átta viðskiptum fyrir rúmlega 20 milljónir. Önnur félög sem hækkuðu voru Sýn, Kvika, Reginn og Síldarvinnslan en hækkun þeirra var á bilinu 0,45-0,87%. Þá stóð Eik í stað.

Á móti lækkuðu Iceland Seafood og Reitir mest í viðskiptum dagsins, 1,85%, en þar á eftir kom Marel en félagið lækkaði um 1,71%. Brim, Skeljungur, VÍS, Hagar og Síminn lækkuðu öll um í kringum 1,5%. Þá lækkuðu Sjóvá og Icelandair um rúmt prósent og Eimskip, Íslandsbanki og Festi um tæpt prósent. Arion lækkaði um 0,13%.

Fjöldi viðskipta í dag á aðalmarkaði var 425 en mest viðskipti, hvað fjölda varðar, var með bréf í Símanum eða sextíu talsins. Mesta veltan var aftur á móti í bréfum Haga eða 613 milljónir. Þar á eftir fylgdu Kvika og Arion banki með rúmlega 420 milljónir hvor banki. Heildarvelta á aðalmarkaði nam þremur milljörðum.

Tíðindalaust var að mestu af First North markaðnum. Play lækkaði um 0,36% í 50 milljóna veltu og þá náðu viðskipti fyrir 73 þúsund krónur að ýta gengi Solid Clouds niður um 2,15%.

Líflegra var á skuldabréfamarkaði en oft áður en alls áttu sér stað 68 viðskipti, mest með RIKS 26 og RIKS 30. Heildarvelta nam sjö milljörðum en þar af var samanlagt umfang fyrrnefndra tveggja flokka þrír milljarðar sem þeir skiptu bróðurlega milli sín.