Stjarnan slapp með skrekkinn gegn Gróttu

Sverrir Eyjólfsson tryggði Stjörnunni sigur í Garðabæ.
Sverrir Eyjólfsson tryggði Stjörnunni sigur í Garðabæ. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sverrir Eyjólfsson tryggði Stjörnunni sigur þegar liðið tók á móti Gróttu í hörkuleik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í TM-höllinni í Garðabæ í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 28:27-sigri Stjörnunnar en Sverrir skoraði sigurmark leiksins þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en liðin skiptust á að skora í fyrri hálfleik og var staðan jöfn í hálfleik, 13:13.

Stjarnan náði mest þriggja marka forskoti í síðari hálfleik en Gróttumenn neituðu að gefast upp og tókst að jafna metin í 23:23 þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Það voru hins vegar Garðbæingar sem voru sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri.

Tandri Már Konráðsson, Björgvin Hólmgeirsson og Sverrir Eyjólfsson skoruðu fjögur mörk hver fyrir Stjörnuna.

Hjá Gróttu var Birgir Steinn Jónsson markahæstur með sex mörk og Andri Þór Helgason og Gunnar Dan Helgason skoruðu fimm mörk hvor.

Stjarnan er með 14 stig í sjöunda sæti deildarinnar en Grótta er í tíunda sætinu með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert