Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við HÍ, segir ráðlegt að ríkisstjórnin minnki hallarekstur og að stjórnvöld og seðlabankinn beiti sér fyrir jákvæðum raunvöxtum til að stuðla að innlendum sparnaði og jákvæðum viðskiptajöfnuði. Þar að auki þurfi að gæta hófs í launakröfum og reyna þess í stað að bæta kjör þeirra sem verst eru settir með tilfærslukerfum ríkisins. „Samkeppnishæfni atvinnulífsins skiptir sköpum,“ skrifar Gylfi í vikuritinu Vísbendingu .

„Til þess að svona megi fara verða stjórnvöld, ríkisstjórn og seðlabanki, að hafa styrk til þess að gera það sem er varfærið og rétt þrátt fyrir kröfur fyrirtækja og stjórnmálamanna um að halda vöxtum lágum, nú þegar þeir eru lægri en verðbólga, og auka ríkisútgjöld án fjármögnunar,“ segir Gylfi, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Sjá einnig: Hækka vexti ef ríkið dregur sig ekki í hlé

Aldrei þessu vant sé ástand efnahagsmála gott hér á landi í samanburði við stórþjóðir. Skuldir ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila séu hóflegar, afgangur er á viðskiptum við útlönd, erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið hagstæðari og gjaldeyrisforðinn, sem nemur um 900 milljörðum króna, stór í sögulegu samhengi. Þar að auki hafi seðlabankinn ekki aukið peningamagn umtalsvert né stækkað efnahagsreikning sinn eftir að gjaldeyriskaupum var hætt.

Grein Gylfa fjallar almennt um þær hættur sem steðja að efnahagslífi í heiminum á næstu árum. Skuldir hins opinbera og einkaaðila hafa aukist í flestum ríkjum, seðlabankar hafa aukið peningamagn umtalsvert og verðbólga fer vaxandi. Þá virðist hagvöxtur í Kína loksfara minnkandi sem gæti gert með „braki og brestum“.

„Það er því full ástæða nú, sem endranær, til þess að fara varlega í hagstjórn innanlands.“

Verðbólga eða hærri vaxtabyrði

Í greininni segir Gylfi að Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafi réttlætt háa verðbólgu vestanhafs vegna tímabundinna þátta, líkt og hækkun olíuverðs og skorti á minnkskubbum, timbri og fleira. Síður minnist Powell á að peningamagn í Bandaríkjunum hafi aukist mikið frá því Covid-faraldurinn hófst.

Vöxtur peningamagns umfram hagvöxt og verðbólgu endi að lokum með vaxandi verðbólgu. Vilji bandaríski seðlabankinn koma í veg fyrir þessa verðbólgu verður hann að minnka vöxt peningamagns til skemmri tíma og til lengri tíma selja skuldabréfin sem hann hefur keypt. Þá munu vextir hækka með tilheyrandi áhrifum á vaxtabyrði ríkissjóðs. Gylfi bendir þó á að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi ekki enn tilkynnt um að hann muni draga úr umfangi kaupa á ríkisbréfum.

„Það er alls óvíst hvort seðlabanki Bandaríkjanna, Evrópu og sá breski hafi vilja til þess að hækka stýrivexti og minnka vöxt peningamagns til þess að koma í veg fyrir vaxandi verðbólgu. Vaxtahækkun gæti haft í för með sér gjaldþrot fyrirtækja, aukna vaxtabyrði húsnæðislána og aukið atvinnuleysi meðal þeirra sem verst hafa það, og stóraukin ríkisútgjöld,“ skrifar Gylfi.

Hver prósentuhækkun vaxta kosti bandaríska ríkissjóðinn um 1% af árlegri landsframleiðslu sem síðan kallar á miklar skattahækkanir eða útgjaldalækkanir. Önnur ástæða þess að bandaríski seðlabankinn gæti frestað vaxtahækkunum er að þær gætu haft áhrif á skuldsett fyrirtæki í öðrum löndum.

„Í Evrópu munu seðlabankar varla hækka vexti mikið á meðan vextir þess bandaríska haldast lágir til þess að gengi evru og punds gagnvart dollar hækki ekki um of og vegna mikilla ríkisskulda í sumum evruríkjunum. Vaxandi verðbólga í Bandaríkjunum gæti þannig smitað út frá sér til Evrópu.“