Tap gegn Ísrael og silfur því niðurstaðan

Íslenska U18 ára landslið karla að leik loknum í kvöld.
Íslenska U18 ára landslið karla að leik loknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Ísland tapaði fyrir Ísrael, 5:1, í lokaleik A-riðils 3. deildar U18 heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Leikurinn var úrslitaleikur riðilsins en ljóst var fyrir leik að Íslandi dugði jafntefli í venjulegum leiktíma til að vinna riðilinn og fara upp um deild. 

Það var þó ekki niðurstaðan en Ísraelsmennirnir reyndust sterkari og unnu að lokum öruggan 5:1 sigur. Ísland verður því áfram í 3. deild mótsins.

Viktor Mojzyszek skoraði mark Íslands og minnkaði þá muninn í 2:1 seint í síðasta leikhlutanum en Ísraelsmenn skoruðu þrjú mörk á lokamínútunum og tryggðu sér sigurinn.

Ásamt Íslandi og Ísrael í A-riðli voru Lúxemborg, Tyrkland, Mexíkó og Bosnía.

Ísrael fékk 12 stig, Ísland 12, Tyrkland 9, Mexíkó 9, Bosnía 3 og Lúxemborg ekkert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert