Sleit krossband og missir af EM

Lewis Ferguson í leik með Bologna.
Lewis Ferguson í leik með Bologna. Ljósmynd/BolognaFC1909

Knattspyrnumaðurinn Lewis Ferguson, miðjumaður skoska landsliðsins og spútnikliðs Bologna í ítölsku A-deildinni, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné á dögunum og verður því lengi frá.

Ferguson, sem er 24 ára gamall, er lykilmaður Skota og Bologna þar sem hann er fyrirliði og því um mikið áfall að ræða fyrir bæði lið líkt og leikmanninn sjálfan.

Missir hann af EM 2024 með Skotlandi, sem fer fram í Þýskalandi í sumar.

Bologna er sem stendur í fjórða sæti ítölsku A-deildarinnar, sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili auk þess sem miklar líkur eru á að fimmt sætið muni einnig gefa sæti í Meistaradeildinni.

Ferguson hefur skorað sex mörk og lagt upp fjögur til viðbótar í 31 deildarleik fyrir Bologna á tímabilinu en nú er ljóst að hann verður frá um níu mánaða skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert