Körfubolti

Leikmenn Dallas Mavericks voru í vörn á vitlausa körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, var mjög ósáttur með það sem gerðist í þriðja leikhluta í naumu tapi Dallas Mavericks á móti Golden State Warriors.
Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, var mjög ósáttur með það sem gerðist í þriðja leikhluta í naumu tapi Dallas Mavericks á móti Golden State Warriors. Getty/Tim Heitman

Dallas Mavericks tapaði með tveimur stigum á móti Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og það gerir eina furðulegustu körfu tímabilsins enn meira svekkjandi.

Mark Cuban, eigandi Dallas liðsins, var mjög ósáttur eftir leik og ætlar leggja inn formlega kvörtun vegna atviks í leiknum. Hann fór svo langt með að kalla þetta mögulega verstu dómaramistökin í sögu deildarinnar.

Goldeb State vann leikinn 127-125 en bæði liðin eru í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Í þriðja leikhluta skoraði Golden State stórfurðulega körfu þegar leikmenn Dallas Mavericks stilltu upp á hina körfuna.

Allir leikmenn Golden State voru því galopnir þegar þeir tóku innkastið undir körfu Dallas og það endaði auðvitað með auðveldri troðslu frá Kevon Looney.

Cuban útskýrði það sem gerðist eftir leik og fór á kostum á samfélagsmiðlum. Það sauð á honum.

Samkvæmt eiganda Mavericks þá dæmdu dómararnir Dallas boltann áður en farið var í leikhlé. Kynnirinn í húsinu tilkynnti að Dallas ætti boltann. Leikmenn og þjálfarar Mavericks vissu því ekki betur en að þeir að fara að stilla upp í sókn.

Dómarartríóið breytti hins vegar dómnum í leikhléinu og samkvæmt Cuban þá létu þeir Dallas ekki vita af því að þeir væru búnir að gefa Golden State boltann og að leikmenn Dallas ættu í raun að byrja í vörn.

Það fyndna er að þetta var ekkert leiðrétt þegar liðin stilltu upp á sitthvora körfuna og því fékk Golden State gefins körfu eins og sjá má hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×