Meistararnir lögðu Þýskaland að velli

Jorge Maqueda var markahæstur Spánverja í dag.
Jorge Maqueda var markahæstur Spánverja í dag. AFP

Jorge Maqueda var markahæstur Spánverja með sex mörk þegar liðið vann öruggan sigur gegn Alfreði Gíslasyni og lærisveinum hans í Þýskalandi í milliriðli II á Evrópumóti karla í handknattleik í Bratislava í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 14:12, Spánverjum í vil, í hálfleik.

Spánverjar skoruðu fyrstu fimm mörk síðari hálfleiks, komust í 19:12, og Þjóðverjum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil eftir það. Lokatölur urðu 29:23 Spánverjum í vil.

Gonzalo Perez átti stórleik í marki spænska liðsins, varði sextán skot og var með 41% markvörslu. Johannes Golla og Patrick Zieker voru markahæstir í þýska liðinu með fjögur mörk hvor.

Evrópumeistarar Spánverjar eru með 4 stig í efsta sæti milliriðils II en Þjóðverjar eru í þriðja sætinu með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert