Náði úrslitaleiknum en missir af Þjóðhátíð

Natan segist horfa á 30 sjónvarpsþætti á dag.
Natan segist horfa á 30 sjónvarpsþætti á dag. Ljósmynd/Aðsend

Natan Hjaltalín, knattspyrnu- og námsmaður, situr nú fastur í far­sótt­ar­húsi Rauða krossins eftir að hafa greinst með Covid-19 á sunnudaginn var. Hann smitaðist í Lundúnum þar sem hann fylgdist með úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu. 

Natan var bólusettur snemma í vor með bóluefni Pfizer í Bandaríkjunum þar sem hann býr á veturna. Hann fékk fyrri sprautuna í febrúar og þá seinni í mars svo hann er fullbólusettur. Þrátt fyrir það segist Natan hafa orðið mjög slappur síðastliðna helgi en hefur að mestu jafnað sig núna þótt hann sé enn kvefaður. 

Verst að missa af Þjóðhátíð 

Það versta við stöðuna segir Natan vera að hann missi af Þjóðhátíð sem á að fara fram í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Hátíðin fór ekki fram í fyrra en Natan hafði hlakkað mikið til að fara: „Englandsferðin var ekki svo góð að ég sé tilbúinn að gefa Þjóðhátíð upp á bátinn fyrir hana. Ég held nú síður. 

Ég ligg í rúminu 23 klukkustundir á sólarhring og geng um herbergið mér til heilsubótar. Blessunarlega er ég skráður í sumarskóla svo ég get sinnt náminu á milli þess sem ég hringi í fólk og horfi á sjónvarpsþætti,“ segir Natan. Fyrsta nóttin reyndist honum erfiðust þar sem hann þurfti að venjast sífelldum hóstaköstum nágranna sinna.

Sumarfríinu varið í farsóttarhúsi

Natan er á námsstyrk í háskóla í Iowa þar sem hann spilar með knattspyrnuliðinu samhliða námi. Fari svo að Natan dvelji á farsóttarhúsinu í tvær vikur, eins og til stendur, flýgur hann vestur um haf tveimur dögum eftir að hann losnar út. Íslenska sumarfríið yrði þá heldur styttra en hann hefði vonað: „Maður reynir bara að gera gott úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert