Richard Gere fær að bera vitni

Richard Gere um borð í skipinu fyrir tveimur árum.
Richard Gere um borð í skipinu fyrir tveimur árum. AFP

Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, kom fyr­ir dóm í morgun í máli ákæru­valds­ins gegn hon­um.

Sal­vini er ákærður fyr­ir að hafa brotið lög og mis­notað vald sitt með því að neita 147 flótta­mönn­um, sem voru um borð við slæmar aðstæður í björg­un­ar­skipi, að koma í land á Ítalíu. Stóð það yfir í eina viku.

Sam­kvæmt ít­ölsk­um lög­um er ekki hægt að sækja ráðherra til saka fyr­ir brot í embætti nema þingið svipti ráðherr­ann þing­helgi, en ít­alska þingið samþykkti það fyrr á ár­inu.

Réttarhöldin eiga sér stað í Palermo á Sikiley og sagði dómari málsins, Roberto Murgia, í dag að allir þeir sem lögmenn vildu að bæru vitni fengju að gera það.

Þar á meðal eru bandaríski leikarinn Richard Gere, sem heimsótti skipið þar sem það lá úti fyrir ströndum Ítalíu, og fyrrverandi forsætisráðherrann Giuseppe Conte.

Allt að fimmtán ára fangelsi

Sal­vini, sem er formaður hægrisinnaða þjóðern­is­flokks­ins Banda­lags­ins, er ákærður fyrir frelsissviptingu og misbeitingu valds vegna atviksins, sem átti sér stað í ágúst árið 2019.

Hann var viðstaddur réttarhöldin í dag en yfir honum vofir allt að fimmtán ára fangelsisdómur, ef hann verður fundinn sekur.

„Segið þið mér hversu alvarleg réttarhöld eru, þar sem Richard Gere mun koma frá Hollywood til að bera vitni um mína meinfýsni,“ sagði Salvini við blaðamenn á tröppum dómshússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert