Hannes jafnaði met Birkis

Hannes fagnar marki í sigri íslenska landsliðsins gegn Rúmeníu á …
Hannes fagnar marki í sigri íslenska landsliðsins gegn Rúmeníu á dögunum. AFP

Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, jafnaði í kvöld leikjamet Birkis Kristinssonar. Hannes kom inn á í hálfleik fyrir Ögmund Kristinsson og spilaði þar með sinn 74. landsleik.

Hannes er því búinn að jafna met Birkis Kristinssonar yfir flesta landsleiki markvarða. Næstur á eftir þeim er Árni Gautur Arason sem spilaði á sínum tíma 71 landsleik.

Til stóð að Ögmundur myndi spila allan leikinn en þegar Erik Hamrén, fráfarandi landsliðsþjálfari, fékk veður af því af því að Hannes þyrfti bara einn leik til viðbótar til að jafna met Birkis ákvað hann fyrir leik að skipta honum inn á í hálfleik.

„Planið var að allir markmenn myndu spila einn leik hver. Svo fékk ég upplýsingar um að Hannes ætti einn leik í Birki til að jafna hann og ég vildi gefa honum leik til þess að jafna metið. Hann átti það skilið fyrir allt sem hann hefur gert fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði Hamrén í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert