Ekki mörg lið sem hefðu lifað af þessi áföll

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega ekki sáttur eftir 0:4 tap gegn FH á Samsung vellinum í Garðabæ í Pepsi Max deild karla í gærkvöldi. „Við áttum svo sem skilið að tapa leiknum í dag. Það eina er kannski að í byrjun fá þeir aukaspyrnu sem er ekki aukaspyrna og skora gott mark.“

Eggert Aron Guðmundsson leikmaður Stjörnunnar fékk beint rautt spjald fyrir að klippa Guðmund Kristjánsson niður aftan frá þegar Guðmundur var á sprettinum í skyndisókn. “Mér fannst dómurinn þegar Eggert er rekinn út af vera harður frá mínu sjónarhorni og ef að þetta er línan, sem virðist vera rosalega misjöfn eftir því hvaða dómari er að dæma, hefðum við átt að sjá mun fleiri rauð spjöld í sumar.“

„Eftir að þeir komast í 0:2 var rosalegt basl á okkur að koma okkur af stað en inn á milli spiluðum við ágætlega. Það var gaman að sjá nokkra stráka sem við settum inn í dag og við munum halda því áfram. Ég hefði viljað aðeins meiri kraft í okkar leik á köflum.“

Mikil meiðsli hafa herjað á Stjörnumenn og í dag bættust við Elís Rafn Björnsson og Oliver Haurits sem fóru báðir meiddir af velli. „Við missum Elís út sem er ekki gott. Tóti [Þórarinn Ingi Valdimarsson] kemur inn eftir langa fjarveru og var aldrei klár í að spila meira en kannski 60 mínútur.

Daníel Laxdal er að koma úr meiðslum og það heldur áfram að detta úr hópnum okkar. Heiðar Ægisson meiddist um helgina en verður vonandi til í vikunni, Eyjólfur Héðinsson verður ekki til alveg strax, Brynjari hefur gengið mjög hægt og Tristan Freyr sleit krossband. Það eru ekki mörg lið sem hefðu lifað af þau áföll sem við höfum orðið fyrir.“

Mikið af ungum strákum hafa fengið að spreyta sig hjá Stjörnunni í sumar og er Þorvaldur ánægður með þeirra framlag. „Þetta eru ekki bara ungir strákar, þetta eru kornungir strákar. Sumir þeirra eru ennþá í þriðja flokki og sumir þeirra nýgengnir upp úr þriðja flokki. Þeir eru búnir að standa sig gríðarlega vel með öðrum flokk og líka með okkur. Það er alltaf gleðiefni fyrir félög að fá einn og einn en við erum að fá nokkuð marga.“

Aðspurður hvort Þorvaldur telji að hann verði áfram þjálfari Stjörnunnar á næsta tímabili sagði hann einfaldlega: „Ég reikna alveg með því já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert