Dómur í kynferðisbrotamáli gegn barni ómerktur

Hæstiréttur ógilti dóminn og vísaði aftur til Landsréttar.
Hæstiréttur ógilti dóminn og vísaði aftur til Landsréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur ógilti í gær dóm yfir karlmanni sem ákærður hafði verið fyrir að brjóta kynferðislega gegn dóttur fyrrverandi sambýliskonu sinnar, en dóttirin var á leikskólaaldri er meint brot áttu sér stað. Sagði Hæstiréttur að svo verulegir annmarkar hefðu verið á aðferð við sönnunarmat í Landsrétti að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa til Landsréttar á ný.

Málið kom upp í mars fyr­ir um fjórum árum þegar móðir stúlk­unn­ar greindi barna­vernd­ar­yf­ir­völd­um frá áhyggj­um sín­um eft­ir að dótt­ir henn­ar hafði sagt henni frá brot­um manns­ins.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á stúlkunni þegar hún var um fimm ára, auk þess sem 85 myndir sem sýndu börn á kynferðislegan hátt fundust í síma hans. Var hann fundinn sekur um vörslu myndanna í héraðsdómi en sýknaður af því að hafa brotið á stúlkunni.

Landsréttur snéri þeim dómi við og dæmi manninn í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot og vörslu myndanna. Maður­inn neitaði sök frá upp­hafi og sagði að sam­band hans og stúlk­unn­ar hefði ávallt verið gott. Fram kem­ur í dómi Landsréttar að maður­inn hafi verið einn heima með stúlk­unni þegar meint brot áttu sér stað.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að í dómi Landsréttar er framburður stúlkunnar í skýrslutöku sagður stöðugur, en framburður mannsins hins vegar sagður ótrúverðugur. Hæstiréttur segir hins vegar að ekki sé rétt að framburður hennar hafi verið stöðugur, líkt og staðhæft er í dómi Landsréttar, en það geti meðal annars skýrst af aldri hennar og öðrum aðstæðum. Sé þetta það mikill annmarki við sönnunarmat í dómi Landsréttar að ómerkja skuli hann og vísa málinu aftur í Landsrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert