Haldið föngnum í mánuði á veitingastað í Reykjavík

Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Tilkynnt hefur verið 13 sinnum …
Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Tilkynnt hefur verið 13 sinnum um mansal frá því í fyrrasumar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Erlendum karlmanni var í fyrra haldið föngnum á veitingastað í Reykjavík svo mánuðum skipti, að sögn teymisstjóra hjá Bjarkarhlíð. Tilkynningar um mansal, sem komið hafa inn á borð Bjarkarhlíðar síðan í fyrrasumar, eru nú alls 13 talsins. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.

Af þeim 13 tilkynningum varða sjö þeirra vinnumansal, sem sagt er vera algengast í veitinga- og byggingargeiranum, þrjú varða kynlífsmansal, eitt kynlífs- og vinnumansal og loks varða tvö þeirra smygl á fólki. 

Þolendur og gerendur oftast samlandar

Þeir sem orðið hafa fyrir mansali í umræddum tilfellum eru eingöngu af erlendu bergi brotnir, langflestar konur undir fertugu. Oftast eru þolendur og gerendur frá sama landinu. 

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri hjá Bjarkarhlíð, segir við RÚV að maðurinn sem um ræðir hafi verið sviptur frelsi á veitingastað í Reykjavík á vormánuðum 2020 og ekki átt kost á samskiptum við annað fólk. Með naumindum komst hann í samband við samlanda sína sem hjálpuðu honum að komast úr prísundinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert