Eiginkonan lá í blóðpolli

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sjónarvottar á vettvangi stunguárásar í Numedal í Noregi sögðu eiginkonu hins grunaða hafa legið í „stórum blóðpolli“ eftir að ráðist var á hana. Ástand hennar er talið alvarlegt. 

Meintur árásarmaður er af sýrlensku bergi brotinn. Hann réðst einnig á karlmann en sá særðist ekki alvarlega. Flogið var með bæði karlmanninn  og eiginkonu hins grunaða á sjúkrahús. Ekki er vitað hvort særði karlmaðurinn og meintur árásarmaður þekkjast. 

Árásarmaðurinn meiddist einnig en þurfti ekki á heilbrigðisþjónustu að halda, að sögn lögreglu. 

Virðist hafa haldið nálgunarbann þar til nú

Lögreglan hefur ekkert gefið uppi um mögulegt tilefni árásarinnar en í frétt TV2 kom fram að hinn grunaði sé til rannsóknar vegna heimilisofbeldis sem tilkynnt var í nóvembermánuði. Hann virðist hafa haldið nálgunarbann þar til nú.

Árásin átti sér stað í grennd við strætóstoppistöð, á milli matvöruverslunar og framhaldsskóla. Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla héldu vagnstjóri strætisvagns og framhaldsskólanemendur sem áttu leið hjá, manninum niðri þar til lögreglu, sjúkrabíla og sjúkraþyrlur bar að garði. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum. 

Numedal er stutt frá Kongsberg en þar myrti karlmaður fimm manns og særði nokkra til viðbótar með hnífum og boga í októbermánuði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert