Maður er búinn að kynnast ofboðslega mörgu flottu fólki

Við erum sátt, göngum sátt frá borði,“ segir Svanur Gunnarsson, …
Við erum sátt, göngum sátt frá borði,“ segir Svanur Gunnarsson, annar rekstraraðila Litlu kaffistofunnar, en hún lokar í lok júlí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara gangur lífsins,“ segir Svanur Gunnarsson, annar rekstraraðila Litlu kaffistofunnar, í samtali við mbl.is en greint var frá því í gær að Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg verði lokað í júlí.

Litla kaffistofan er gömul og rótgróin kaffistofa sem liggur við hringveginn þar sem höfuðborgarsvæðið og Suðurland mætast og ætti að vera flestum landsmönnum þaulkunnug. Litla kaffistofan var stofnuð 4. júní 1960 og varð því 61 árs fyrr í mánuðinum.

Hjónin Svanur Gunnarsson og Katrín Hjaltadóttir hafa rekið staðinn síðustu fimm ár en þau leigja húsnæðið af Olís. „Það er þá þeirra að ákveða hvort það komi nýir rekstraraðilar eða hvort henni verði lokað alveg,“ segir Svanur og tekur fram að Olís hafi ætíð verið mjög sanngjarnt í þeirra viðskiptum.

Litla kaffistofan. Olís á húsnæðið en hjónin Svanur Gunnarsson og …
Litla kaffistofan. Olís á húsnæðið en hjónin Svanur Gunnarsson og Katrín Hjaltadóttir hafa rekið staðinn síðustu fimm ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ástæðan fyrir lokuninni mun vera breytt rekstrarumhverfi sem reynist litlum fyrirtækjum erfitt. Aðspurður hvort ástæðan tengist Covid-19 segir Svanur það hafa haft áhrif en margir aðrir þættir, til að mynda launakostnaður, spili inn í.

„Fimm ár er ágætistími í þessu og þetta er búið að vera frábær tími alveg hreint. Maður er búinn að kynnast ofboðslega mörgu flottu fólki. Mörgum fastakúnnum,“ segir Svanur en Litla kaffistofan er, sem áður segir, á Suðurlandsvegi og því margir sem keyra þar reglulega um á leið sinni milli höfuðborgarsvæðisins og hinna ýmsu bæja og þorpa Suðurlandsins.

„Við erum sátt, göngum sátt frá borði,“ segir Svanur að lokum. Nú taka önnur, ný og spennandi verkefni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert