Gengi bréfa Haga hækkaði mest í viðskiptum með hlutabréf í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 3,31%, upp í 50,0 krónur, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi batnaði afkoma félagsins milli ára.

Viðskiptin með bréf Haga voru jafnframt þau mestu í kauphöllinni í dag með bréf í einstöku fyrirtæki, eða fyrir 596,8 milljónir króna, en heildarveltan með hlutabréf í dag nam 2 milljörðum króna.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,61%, upp í 1,18 krónur, í þó ekki nema 7 milljón króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Iceland Seafood, eða um 2,01%, upp í 8,64 krónur. Sjö fyrirtæki hækkuðu í verði í kauphöllinni í dag, en ellefu fyrirtæki lækkuðu, og lækkaði þar með Úrvalsvísitalan um 0,515, niður í 2.086,25 stig.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Reginn, eða um 2,77%, niður í 15,80 krónur, í 107 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi annars fasteignafélags, Reita, eða um 1,74%, í 64 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfanna 45,30 krónur.

Loks var þriðja mesta lækkunin á gengi bréfa Marel, eða um 1,17%, í jafnframt næstmestu viðskiptunum eða fyrir 376,9 milljónir króna og nam lokagengi bréfa félagins 673,0 krónum. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Festi, eða fyrir 202,4 milljónir króna, en bréf félagsins lækkuðu um 0,35%, niður í 142 krónur.

Krónan heldur áfram að lækka

Íslenska krónan lækkaði gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema sænsku og norsku krónunum sem báðar veiktust gagnvart þeirri íslensku. Nam lækkunin 0,42% í tilviki þeirrar sænsku sem fæst nú á 15,344 krónur íslenskar, en sú norska lækkaði um 0,35%, niður í 14,611 íslenskar krónur.

Breska pundið styrktist mest helstu viðskiptamyntanna, eða um 0,67%, upp í 175,79 krónur, en næst mest var styrking Bandaríkjadals, eða um 0,33% og fæst hann nú á 137,70 krónur. Loks nam styrking evrunnar 0,12% og fæst hún nú á 160,87 krónur.