Dæmdur fyrir að áreita dyravörð

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á þrítugsaldri var á föstudag fundinn sekur um kynferðislega áreitni gagnvart dyraverði á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Var hann fundinn sekur um að hafa slegið konuna utanklæða á rass.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi verið að skemmta sér á skemmtistað þar sem konan starfaði sem dyravörður. Hafi maðurinn farið út að reykja fyrir utan staðinn og konan þá verið í dyrunum. Þegar hann hafi svo farið inn hafi hann slegið hana þéttingsfast þannig að hún kipptist við.

Maðurinn sem ákærður var neitaði sök í málinu og bar fyrir sig minnisleysi. Sagði hann að hann og konan hafi einu sinni áður átt í kynferðislegum samskiptum og að samskipti þeirra verið á vinalegum nótum. Taldi hann sig ekki hafa áreitt konuna líkt og honum var gefið að sök. Ef hann hefði rassskellt hana hafi tilgangur þess vafalaust verið vinsamlegur en ekki einhver „perraskapur“.

Sagði konan fyrir dómi að hún teldi háttsemina ömurlega niðurlægjandi og að eftir nokkra stund hafi hún beðið aðra dyraverði um að vísa manninum út. Tvö vitni, sem einnig störfuðu sem dyraverðir umrætt kvöld, báru vitni um að hafa séð manninn slá konuna.

Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél og bar vaktstjóri um að hafa séð myndbandið. Taldi hún þó að höggið hefði ekki verið fast, en að ólíklegt væri að um óviljaverk væri að ræða. Annað vitni hafði einnig séð myndefnið en það hafði svo misfarist að vista það áður en því var sjálfkrafa eytt eftir tvær vikur. Taldi vaktstjóri að mögulega hefði orðið misskilningur milli sín og konunnar varðandi vistun á efninu.

Í dóminum kemur fram að framburður konunnar hafi verið trúverðugur og þá hafi framburður vitnanna verið á einn veg. Telur dómurinn sannað að maðurinn hafi verið að verki og að með athæfi sínu hafi hann gerst sekur um snertingu í óþökk konunnar sem væri andstæð góðum samskiptaháttum. Mátti honum vera það ljóst þegar hann sló konuna á rassinn að háttsemin fæli í sér kynferðislega áreitni.

Var hann því fundinn sekur og dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða konunni 150 þúsund í bætur og 1,2 milljónir í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert