Erlent

Rannsaka hrottalegt morð á kennara sem hryðjuverk

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi árásarinnar í úthverfinu norðvestur af París.
Lögreglumenn á vettvangi árásarinnar í úthverfinu norðvestur af París. AP/Michel Euler

Franska lögreglan rannsakar nú morð á kennara sem sýndi skopmyndir af Múhammeð spámanni í kennslustund sem hryðjuverk. Kennarinn var hálshöggvinn og skutu lögreglumenn árásarmanninn til bana.

Maður vopnaður stórum hníf er sagður hafa ráðist á kennarann og afhöfðað hann nærri skóla í Conflans-Sainte-Honorine, úthverfi Parísar, um klukkan 17:00 að staðartíma í dag. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi og hafði í hótunum við lögreglumenn sem reyndu að handsama hann. Skutu lögreglumennirnir þá manninn sem lést af sárum sínum skömmu síðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Saksóknarar sem rannsaka hryðjuverk stýra nú rannsókn málsins og lögreglu hefur beðið fólk um að halda sig fjarri vettvangi.

AP-fréttastofan segir að fórnarlambið hafi verið sögukennari sem ræddi við framhaldsskólanemendur sínar um skopmyndir af Múhammeð spámanni fyrir tíu dögum. Honum hefði borist hótanir og foreldri nemanda hafði kvartað undan honum. Lögregla telur þó ekki að árásarmaðurinn hafi átt barn í skólanum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir frönsku sjónvarpsstöðinni BFM TV að árásarmaðurinn hafi verið átján ára gamall og fæddur í Moskvu í Rússlandi.

Réttarhöld standa nú yfir í París yfir samverkamönnum hryðjuverkamanna sem myrtu tólf manns á ritstjórnarskrifstofum skopblaðsins Charlie Hebdo árið 2015. Blaðið hafði birt skopmyndir af Múhammeð spámanni. Fyrir þremur vikum réðst pakistanskur maður á karl og konu og særði þau fyrir utan húsið þar sem skrifstofurnar voru áður til húsa.


Tengdar fréttir

Sjö handteknir vegna stunguárásanna í París

Lögreglan í París hefur handtekið sjö manns í tengslum við stunguárásir nærri fyrri skrifstofum skopritsins Charlie Hebdo í gær. Tvennt var sært í árásunum sem eru rannsakaðar sem hryðjuverk

Maður vopnaður hnífi réðst á fólk í París

Lögreglan í París handtók karlmann sem er talinn hafa sært fólk með hnífi nærri fyrri skrifstofu skopdagblaðsins Charlie Hebdo í dag. Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×