Ég vil segja að samráðið við Bankasýslu í umsagnarferlinu var að mínu viti með ólíkindum, algjörlega fordæmalaust,“ sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi sem fór mikinn á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

„Þeir voru boðaðir á fund, Bankasýslan, sem er ekki alvanalegt þegar skýrslur eru í umsagnarferli, en þar lögðu þeir fyrir Ríkisendurskoðun m.a. hvernig við ættum að afmarka okkar vinnu og hvernig við hefðum átt að vinna þessa skýrslu.“

Guðmundur ræddi ítarlega um hina frægu Excel-villu sem lögð var mikil áhersla á í Íslandsbankaskýrslu Ríkisendurskoðunar.

„Þetta Excel mál gengur í sjálfu sér ekki út á það, og það sjá allir sem lesa skýrsluna, að við höfum hengt okkur með einhverjum hætti í eitthvað vitlaust skjal, bundið við einhvern ákveðinn tímapunkt sem síðan hélt áfram að þróast um kvöldið og betri gögn urðu til. Skýrsla okkar er unnin út frá öllum gögnum sem liggja fyrir, tilboðabókin eins og hún leit úr 19:37, 20:36 og 21:30 þegar söluferlinu var lokið […] Ríkisendurskoðun er að fullu meðvituð um að tilboðabókin hélt áfram í þróun allt kvöldið.“

Bankasýslan hafi byggt svör sín á skjalinu með Excel-villunni

Guðmundur segir að Ríkisendurskoðun hafi aðeins beðið um stöðu tilboðabókar þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin. Kallað var eftir tilboðsbókinni í maí og Bankasýslan hafi afhent skjal með heitinu „staða tilboðabókar þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin“. Bankasýslan hafi svarað á fundum og í gögnum sínum út frá þessu skjali.

„Við síðan hefjumst handa við það að greina þessar upplýsingar, vinnum okkar vinnu þá út frá þessari tilboðabók sem að Bankasýslan sendi okkur. Það er ekki fyrr en í umsagnarferli skýrslunnar að Íslandsbanki, ekki Bankasýslan, vekur athygli á því að hugsanlega væri réttara að beina sjónum að skjalinu eins og það leit út 20:36. Ég vek þá bara athygli að því að Bankasýslan í sínum samskiptum við okkar er búin að vera að tala út frá fyrra skjalinu og því eðlilegt að það sé greint [frá] og eðlilegt að við greinum Alþingi frá því öllu saman, hvernig þetta atvikast.“

„Íslandsbanki sendi Bankasýslunni þetta skjal, þetta umrædda Excel-skjal með villunum 19:37,“ segir Guðmundur. „Þegar Íslandsbanki sendi Bankasýslunni þetta skjal, þá ber það annað heiti heldur en skjalið sem Bankasýslan sendi áfram til okkar og Fjármálaeftirlitsins. Skjalið frá Íslandsbanka hét ekki „staða tilboðabókar þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin“. Bankasýslan, einhverra hluta vegna, breytir þessu heiti.“

Málflutningurinn ekki við hæfi og skapi upplýsingaóreiðu

Hann bætir við að þó sé horft til skjalsins með stöðu tilboðabókarinnar kl. 20:36 þá breyti það engu um ályktun Ríkisendurskoðunar um að Bankasýslan hafi ekki haft fullnægjandi yfirsýn og upplýsingar um heildareftirspurn samkvæmt tilboðabókinni.

Í bréfi Bankasýslunnar til fjármálaráðherra kl. 21:40, eftir að sölunni lauk, hafi komið fram að tilboð höfðu borist frá 150-200 aðilum upp á hundrað milljarða króna. Hið rétta hafi verið tilboð frá 209 aðilum upp á 148,4 milljarða króna.

„Það er hafið yfir allan vafa að Bankasýslan hafði ekki þessa fullnægjandi yfirsýn, ekki kl. 19:37, ekki kl. 20:36, ekki kl. 21:40. Hún hafði ekki betri yfirsýn um það enn þá í maí að hún sendi okkur skjal sem heitir „staða tilboðabókar þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð er tekin“ með öllum þessum villum, með greiningu á tilboðabókinni með öllum villunum,“ segir Guðmundur.

„Þið afsakið samlíkinguna en þetta er eins og að fara með rangt barn heim af róló og halda svo áfram að kynna það fyrir fjölskyldu og vinum sem sitt eigið. Þetta er bara alvarlegt mál. Ég veit ekki hvað vakir fyrir Bankasýslunni þegar hún gerir þetta.

Ég segi bara hér sem trúnaðarmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi að málflutningur Bankasýslunnar um þetta atriði er bara alls ekki við hæfi og eingöngu til þess fallin að skapa upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðu Alþingis og almennings um hvað það var sem þetta mál snerist um.“

Hann sagði jafnframt við að fullyrðingar Bankasýslunnar eigi sér ekki stoð í gögnum málsins og eru að sínu mati „eftiráskýringar og yfirklór“.

Gerir ráð fyrir sér í skaupinu

Guðmundur hvatti nefndarmenn að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar aftur ef mál hans væri ekki kýrskýrt. Hann segir að ástæða fyrir töfum á birtingu skýrslunnar skýrst af þeim tíma sem tók að vinna úr villum sem komu fram í skjalinu.

„Ég vil segja það enn og aftur að ég tel mig og lít svo á að ég leggi starfsheiður minn að veði í hvert sinn sem ég skila Alþingi skýrslu. Það er mjög mikilvægt að Ríkisendurskoðun segi satt og rétt frá. Ég hef einsett mér að vera gagnsær í mínum vinnubrögðum, stundum sjálfum mér til tjóns, sbr. það að ég geri fastlega ráð fyrir að ég muni eiga mér sess í skaupinu fyrir tíð loforð um skýrsluskil.“

Hefðu getað sett ferlinu listrænar skorður

Guðmundur ræddi einnig um orð Bankasýslunnar að sala með tilboðsfyrirkomulagi líkist meira list heldur en raunvísindum. Hann segist ekki mótfallinn því að til staðar sé svigrúm til mats en Ríkisendurskoðun hafi leitast við að bera saman það sem kynnt var þinginu og því sem síðan gerðist.

„En hefði þinginu einfaldlega verið skýrt frá því að uppgjör svona ferlis væri í meira mæli list heldur en vísindi þá tel ég að minnsta kosti að þinginu hefði fengið tækifæri á því að setja ferlinu listrænnar skorður,“ segir Guðmundur.

„Það kom fram í máli Fjármálaráðuneytis strax í upphafi úttektar að menning Bankasýslunnar einkennist fremur að fjármálamarkaði heldur en opinberrar stjórnsýslu. Ég held að í rauninni allt sem að hefur gerst og hefur átt sér stað í málflutningi Bankasýslu frá því að þessi skýrsla var gefin út sem og í umsagnarferli staðreynir þetta.“