Handbolti

Erlingur lét þjálfarann spila á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Gerrie Eijlers var óvænt kallaður til í gær og spilaði smáhluta af leik Hollands gegn Frakklandi.
Gerrie Eijlers var óvænt kallaður til í gær og spilaði smáhluta af leik Hollands gegn Frakklandi. Getty/Henk Seppen

Erlingur Richardsson nýtti krafta markmannsþjálfara síns í leik Hollands á Evrópumótinu í handbolta í gær, og sá gæti spilað enn meira í næstu leikjum þrátt fyrir að hafa lagt skóna á hilluna fyrir tveimur árum.

Það er ekki bara íslenska landsliðið sem orðið hefur illa fyrir barðinu á kórónuveirunni á EM. Raunar hafa flest liðanna lent illa í veirunni og yfir 60 leikmenn smitast síðan að mótið hófst fyrir viku síðan.

Þar á meðal eru fimm leikmenn hollenska landsliðsins, sem nú eru í einangrun. Í þeim hópi eru báðir helstu markverðir liðsins.

Markvörðurinn Dennis Schellekens greindist með veiruna fyrir leikinn við Frakkland í gær og því neyddist Erlingur til að biðja markmannsþjálfarann Gerrie Eijlers að vera í búning.

Eijlers, sem er 41 árs, spilaði raunar hluta leiksins og varði þrjú af fjórum skotum sem hann fékk á sig, þrátt fyrir að hafa ekki spilað leik í tvö ár!

Nú hefur svo aðalmarkvörður Hollands, Bart Ravensbergen, einnig greinst með veiruna. Því er René de Knegt á leiðinni til Búdapest með flugi og vonandi fyrir Erling og hans menn að De Knegt standist smitpróf við komuna.

Aðrir sem eru í einangrun þessa stundina eru þeir Jeffrey Boomhouwer, Robin Schoenaker og Iso Sluijters.

Hollendingar leika í sama milliriðli og Ísland en liðin mættust í riðlakeppninni og tók Ísland með sér stigin tvö sem fengust þar með 29-28 sigrinum. Eftir 34-24 tapið gegn Frakklandi í gær mætir Holland næst liði Svartfjallalands á morgun, Danmörku á mánudag og loks Króatíu næsta miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×