„Það er versti ótti forystu Eflingar“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Hákon

„Í grunninn snýst þetta um það að lýðræðið á alltaf að vera í forgrunni og stéttarfélag sem er á harðahlaupum undan eigin félagsmönnum er stéttarfélag í vanda statt.“

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Mál SA gegn Eflingu var þingfest í Félagsdómi í dag.

„Við þurfum öll að spila eftir leikreglum,“ heldur hann áfram. 

Upphrópanir ekki úrskurðarvald

Það hver lætur þyngst orð falla eða hrópar hæst og skammast er ekki aðferð til að úrskurða um hvernig hlutirnir eigi að vera. Efling á sinn samningsrétt en það gilda leikreglur um hvernig sá réttur er nýttur og hann miðast ekki bara við hagsmuni forystu Eflingar. Leikreglurnar lúta að því hvernig ná eigi saman um kjarasamning hverju sinni með almannahagsmuni í húfi. Forysta Eflingar er kannski eyland en hún má ekki haga sér eins og orrustuhóll á eylandi í íslensku samfélagi.

Samtök atvinnulífsins birtu í dag reiknivél á vef sínum þar sem reikna má hversu miklu félagsmenn Eflingar tapa á glataðri afturvirkni samninga. 

Niðurstaða á mánudag í síðasta lagi 

Spurður út í feril málsins fyrir Félagsdómi segist Halldór búast við hraðri málsmeðferð.

„Við væntum þess að greinargerðum verði skilað í lok fimmtudags eða á föstudagsmorgni og að málflutningur fari fram seinni partinn á föstudag. Þá væntum við þess að dómur liggi fyrir í síðasta lagi á mánudag.

Ef að líkum lætur er það mitt mat að verkföll Eflingar verði dæmd ólögmæt og komi þar að leiðandi ekki til framkvæmdar fyrr en greidd hafa verið atkvæði um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Það er versti ótti forystu Eflingar.“

Framganga Eflingar er fordæmalaus

Halldór Benjamín segir Samtök atvinnulífsins vera fullkomlega ábyrgan aðila í þessu samfélagi.

„Við leitum til dómstóla ef við teljum að halli á hagsmuni okkar umbjóðenda og við teljum að það geri það sannarlega í þessu tilviki.

Framganga Eflingar í þessu máli er fordæmalaus með öllu og sökum þessa kjósum við að leita ásjár Félagsdóms.

Sú fordæmalausa staða er komin upp að stjórn Eflingar neitar að afhenda ríkissáttasemjara atkvæðaskrá til þess að lögmæt atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara geti farið fram.

Á þeim grunni teljum við að verkfallsboðun Eflingar sé ólögmæt þar til atkvæði hafa verið greidd af félagsmönnum Eflingar og umbjóðendum Samtaka atvinnulífsins um miðlunartillöguna.

Efling getur ekki með ólögmætum aðgerðum komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna en á sama tíma boðað verkföll á hendur umbjóðendum Samtaka atvinnulífsins,“ segir Halldór.

Mikilvægt að dómurinn stígi fast til jarðar

Athygli vekur að í stefnu SA er þess krafist að Efling verði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð.

Halldór Benjamín segir að um vísvitandi brot á lagaákvæðum um boðun og framkvæmd verkfalla og valdheimildir ríkissáttasemjara sé að ræða.

„Þess vegna teljum við mikilvægt að dómurinn stígi fast til jarðar og sendi skýr skilaboð til deiluaðila inn í vinnudeilur framtíðar.“

„Enginn er hafinn yfir lög. Ekki einu sinni Sólveig Anna Jónsdóttir og forysta Eflingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert