Orlando staðfestir kaupin á Degi

Dagur Dan Þórhallsson er kominn til liðs við Orlando City.
Dagur Dan Þórhallsson er kominn til liðs við Orlando City. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríska knattspyrnufélagið Orlando City staðfesti í dag kaupin á Degi Dan Þórhallssyni frá Breiðabliki.

Orlando hefur samið við hann til tveggja ára, út tímabilið 2024, með möguleika á framlengingu til 2026.

„Dagur Dan er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðjunni hjá okkur, sem kantmaður, eða jafnvel sem hægri bakvörður ef við þurfum á því að halda, og hann hefur verið viðloðandi íslensku landsliðin frá 16 ára aldri,“ segir  Luiz Muzzi, framkvæmdastjóri Orlando City, á heimasíðu félagsins.

„Hann er gríðarlega kraftmikill og er nákvæmlega sú tegund af miðjumanni sem styrkir okkur bæði í sókn og vörn,“ sagði Muzzi.

Dagur er 22 ára gamall og kom til Breiðabliks frá Fylki fyrir síðasta tímabil. Hann var í stóru hlutverki hjá Breiðabliki þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2022, spilaði 25 af 27 leikjum liðsins í deildinni og skoraði níu mörk. Hann lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu í nóvember og næstu tvo gegn Eistlandi og Svíþjóð fyrr í þessum mánuði.

Dagur ólst upp hjá Haukum, var um skeið hjá Gent í Belgíu, Keflavík, og síðan Mjöndalen í Noregi en var í láni þaðan hjá Fylki tímabilið 2021.

Or­lando City hafnaði í sjö­unda sæti Aust­ur­deild­ar MLS á síðasta ári og komst í úr­slita­keppn­ina en féll þar út í fyrstu um­ferð. Þjálf­ari liðsins er Óscar Pareja, 54 ára gam­all Kól­umb­íumaður, sem hef­ur stýrt liðinu frá ár­inu 2019.

Or­lando City er aðeins níu ára gam­alt fé­lag, stofnað árið 2013, og fékk sæti í MLS-deild­inni árið 2015. Besta ár­angri sín­um náði liðið árið 2020 þegar það endaði í fimmta sæti í heild­ina og féll út í átta liða úr­slit­un­um um meist­ara­titil­inn.

Fyrsti leikur Orlando á tímabilinu 2023 í MLS-deildinni er heimaleikur gegn New York Red Bulls sunnudaginn 26. febrúar.

Með komu Dags verða væntanlega fjórir Íslendingar í deildinni á komandi tímabili en Guðlaugur Victor Pálsson leikur með DC United, Róbert Orri Þorkelsson með CF Montréal og Þorleifur Úlfarsson með Houston Dynamo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert