Forsvarsmenn Forest Green brjálaðir - Watford stal stjóra þeirra

Rob Edwards
Rob Edwards Ljósmynd/Watford

Forsvarsmenn enska knattspyrnuliðsins Forest Green Rovers eru vægast sagt brjálaðir eftir að stjóri liðsins, Rob Edwards sagði upp störfum eftir tímabilið. Hann hefur nú verið staðfestur sem nýr stjóri Watford, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Edwards hefur náð eftirtektarverðum árangri með lið Forest Green en félagið er ekki stórt. Hann kom því upp í C-deildina á Englandi á dögunum með því að vinna D-deildina. Hann mun ekki stýra liðinu þar heldur mun hann stýra Watford í B-deildinni.

Roy Hodgson tók við Watford á miðju tímabili í vetur en tókst ekki að bjarga því frá falli. Hann hefur þegar gefið út að hann muni ekki halda áfram með liðið en hann er orðinn 74 ára gamall.

Dale Vince, eigandi Forest Green er ekki ánægður með vinnubrögð Edwards og Watford í málinu en hann vill meina að ólöglegar viðræður hafi átt sér stað.

„Hann [Edwards] sagði mér að hann hafi verið í viðræðum við Watford og að það væri frábært tækifæri sig. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir mig, fólk kemur og fer en það skiptir máli hvernig að því er staðið. Ég óska honum alls hins besta en þetta er dapurt af hálfu Watford og Edwards.

Þetta mun samt sem áður allt blessast hjá okkur. Ef örlögin bregðast okkur ekki munum við mæta Watford í B-deildinni áður en langt um líður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert