Pelé fylgist með frá sjúkrahúsinu

Áhorfendur á heimsmeistaramótinu geta tekið myndir af sér með styttunni …
Áhorfendur á heimsmeistaramótinu geta tekið myndir af sér með styttunni af Pelé á stuðningsmannasvæði HM í Doha í Katar. AFP/Adrian Dennis

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé mun fylgjast með viðureign Brasilíu og Suður-Kóreu á heimsmeistaramótinu í Katar frá sjúkrabeði en hann liggur á sjúkrahúsi í Sao Paulo.

Frá því var greint á Twitter-aðgangi hans í dag.

Um helgina sagði brasilískt dagblað að Pelé væri kominn í líknandi meðferð en bæði sjúkrahúsið og fjölskylda hans hafa borið þær fregnir til baka.

Pelé, sem er 82 ára gamall, hefur dvalið á sjúkrahúsinu síðan á þriðjudag vegna sýkingar í öndunarfærum sem kórónuveirusmit ýtti undir, samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu hans. Þá gengst hann um þessar mundir undir geislameðferð vegna krabbameins.

Pelé skoraði sex mörk á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 1958, þar af tvö mörk í úrslitaleiknum, þá aðeins 17 ára gamall. Hann varð einnig heimsmeistari með Brasilíu árið 1970, er markahæstur í sögu landsliðsins og jafnan talinn einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert