Handbolti

Strákarnir okkar þurfa aukaundanþágu vegna lekans

Sindri Sverrisson skrifar
Skúringamoppan dugar víst skammt til að laga keppnisgólfið í Laugardalshöll eftir vatnstjónið sem varð í vikunni. Ísland mætti Litáen 4. nóvember síðastliðinn og það verður síðasti leikurinn í Höllinni í bili.
Skúringamoppan dugar víst skammt til að laga keppnisgólfið í Laugardalshöll eftir vatnstjónið sem varð í vikunni. Ísland mætti Litáen 4. nóvember síðastliðinn og það verður síðasti leikurinn í Höllinni í bili. vísir/vilhelm

HSÍ þarf að fá sérstaka aukaundanþágu frá handknattleikssambandi Evrópu til að mega spila heimaleik við Portúgal í undankeppni EM í janúar.

Útlit er fyrir að skipta þurfi um keppnisgólf í Laugardalshöll vegna mjög mikils leka sem varð þegar rör í byggingunni gaf sig. Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri íþrótta- og sýningarhallarinnar í Laugardal, segir að endurbætur komi til með að taka 4-6 mánuði. 

Ísland og Portúgal eiga að mætast í undankeppni EM þann 10. janúar, í síðasta leiknum áður en HM í Egyptalandi hefst. Raunar mætast Ísland og Portúgal þrívegis, í þremur löndum, á níu dögum.

Stefnt að því að spila á Ásvöllum

Framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason og hans fólk hjá HSÍ hefur eflaust haft meiri áhyggjur af því að kórónuveirufaraldurinn kæmi í veg fyrir að heimaleikurinn við Portúgal færi fram, líkt og þegar Ísrael fékk það í gegn að leik við Ísland fyrr í þessum mánuði yrði frestað

Nú þarf hins vegar að finna nýjan leikstað og fá sérstaka undanþágu ofan á undanþáguna sem HSÍ hefur haft til að spila alþjóðlega leiki í úreltri Laugardalshöll, svo að leikurinn megi fara fram á Íslandi. 

Í samtali við Vísi í dag sagði Róbert að búið væri að fara þess á leit við Hauka að leikurinn færi fram á Ásvöllum, og að vel hefði verið tekið í það. Núna þurfi svo að óska eftir breytingu á leikstað hjá handknattleikssambandi Evrópu og á Róbert von á að það verði samþykkt í ljósi aðstæðna.

„Ásvellir og Kaplakriki eru hús sem uppfylla flest skilyrði en þó ekki öll. Ég held að þau uppfylli nógu mörg skilyrði til að við fáum undanþágu til að spila. Það er aðallega gólfflötur og áhorfendasvæði sem er ekki nógu stórt, en við fengum undanþágu til að spila kvennalandsleik þarna fyrir ári síðan og ég er bjartsýnn á að við fáum undanþágu núna. Sérstaklega eins og ástandið er í heiminum,“ sagði Róbert.


Tengdar fréttir

Leki í Laugardalshöll

Vegna vatnstjóns verður Laugardalshöllin væntanlega ónothæf næstu mánuðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×