Sleppi Ólympíuleikunum frekar en að fara í bólusetningu

Yohan Blake hefur verið einn besti spretthlaupari heims í rúman …
Yohan Blake hefur verið einn besti spretthlaupari heims í rúman áratug. AFP

Yohan Blake, tvöfaldur ólympíumeistari og tvöfaldur heimsmeistari í spretthlaupum, segir að hann ætli ekki að fara í bólusetningu vegna kórónuveirunnar og myndi frekar sleppa Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar en að fá sprautuna.

„Ég er algjörlega ákveðinn, ég vil ekkert bóluefni. Ég mun frekar sleppa Ólympíuleikunum. Ég vil ekki fara frekar út í þetta mál en ég hef mínar ástæður fyrir þessu," sagði Blake í viðtali við jamaíska dagblaðið The Gleaner.

Blake, sem er 31 árs gamall, var í sigursveit Jamaíku ásamt m.a. Usain Bolt í 4x100 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum 2012 í London og 2016 í Róm. Hann varð ennfremur heimsmeistari í 100 metra hlaupi árið 2011 og fékk gull í boðhlaupi með Jamaíku á sama móti.

Þessi afstaða Blakes mun þó ekki koma í veg fyrir að hann geti keppt í Tókýó í sumar en alþjóðaólympíunefndin hefur gefið út að íþróttafólkið sem þar keppir sé hvatt til að fara í bólusetningu fyrir leikana en það sé ekki skylda.

„Fylgdu sjálfum þér, ekki fjöldanum. En um leið skaltu virða sjónarmið allra. Ekki láta neinn taka ákvörðun fyrir þig," skrifaði Blake á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert