Miklir vatnavextir undir Eyjafjöllum

Unnið er að því að tryggja vatninu farveg undir þjóðveginn.
Unnið er að því að tryggja vatninu farveg undir þjóðveginn. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegna úrkomu hafa orðið töluverðir vatnavextir á Suðurlandi og hefur vatnshæð í Steinslæk undir Eyjafjöllum, sem rennur undir þjóðveg eitt, aukist mikið. „Það er ennþá eitt núll fyrir okkur,“ svarar Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, er blaðamaður spyr um stöðuna.

Hann segir þjóðveginn enn órofinn, en verktaki vinnur nú hörðum höndum að því að finna vatninu farveg.

„Ég er kominn með verktaka með gröfu sem er að moka alveg á fullu,“ segir Ágúst. „Það kemur svo mikið laust efni og möl með að það fyllir undir brúna. Við eigum að vera komin með yfirhöndina þegar við erum komin með vél ofan í.“

Vatnavextir eru undir Eyjafjöllum og hefur vatnshæð í Steinslæk hækkað …
Vatnavextir eru undir Eyjafjöllum og hefur vatnshæð í Steinslæk hækkað mikið. mbl.is/Jónas Erlendsson

Spurður hvort það séu fleiri svæði sem Vegagerðin hefur áhyggjur af og er að fylgjast með svarar Ágúst: „Við erum að skoða öll vatnaför og það er ekkert sem er meira en við höfum áður séð. Í augnablikinu höfum við áhyggjur af Steinslæk, en það er mikið í og rignir mikið.“

Fréttaritari mbl.is á svæðinu segir mjög óvenjulegt að vatn sé í Steinslæk yfir höfuð og að ekki hafi verið leið fyrir vatnið hinum megin við brúna, þar hafi vatn flætt um allt.

Bratt er niður hlíðina.
Bratt er niður hlíðina. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert