Handbolti

Enginn Aron er Álaborg hafði betur gegn Kiel | Sigvaldi skoraði tvö í endurkomusigri Kielce

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk í frábærum endurkomusigri Kielce í Meistaradeildinni.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk í frábærum endurkomusigri Kielce í Meistaradeildinni. CK-Sport

Nú er tveimur leikjum af fjórum sem fram fara í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld lokið. Aron Pálmarsson var fjarri góðu gamni vegna höfuðmeiðsla þegar Álaborg lagði þýska liðið Kiel, 35-33, og Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson unnu frábæran endurkomusigur gegn Barcelona, 29-27.

Mikið jafnræði var með liðunum lengst af í fyrri hálfleik þegar Álaborg tók á móti Kiel. Liðin skiptust á að skora, en það voru leikmenn Álaborgar sem fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn, staðan 17-16.

Sömu sögu er að segja af seinni hálfleik, en þó voru leikmenn Álaborgar alltaf skrefinu á undan. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti og unnu að lokum góðan tveggja marka sigur, 35-33.

Liðið situr nú í þriðja sæti A-riðils með tíu stig eftir átta leiki, einu stigi á eftir Kiel og Montpellier sem sitja í fyrsta og öðru sæti.

Í leik Kielace og Barcelona voru það Börsungar sem tóku forystuna snemma. Liðið náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 14-16, Barcelona í vil.

Gestirnir frá Barcelona komust aftur í fjögurra marka forystu snemma í seinni hálfleik og héldu því forskoti lengi vel. Pólsku meistararnir í Kielce gáfust þó ekki upp og þegar stutt var til leiksloka skoruðu þeir sex mörk í röð og komust yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 1-0.

Þetta reyndust seinustu sex mörk leiksins og Kielce fagnaði því frábærum endurkomusigri gegn Barcelona, 29-27.

Sigvaldi skoraði tvö mörk fyrir Kielce sem situr sem fyrr á toppi B-riðils, nú með 14 stig eftir átta leiki, fimm stigum meira en Barcelona sem situr í öðru sæti. Haukur Þrastarson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×