Vill tölfræði um dóma Landsréttar

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Arnþór

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur beint fyrirspurn til dómsmálaráðherra þar sem spurt er út í dóma Landsréttar í málum sem varða brot gegn friðhelgi og nálgunarbanni.

Biður Andrés um tölfræði um alla dóma Landsréttar í málaflokknum árin 2018-2020, sundurliðað eftir því hvort fyrri dómur var staðfestur, honum breytt til þyngri eða vægari refsingar, dómi snúið eða dómur ómerktur.

Áður hefur komið fram í svari dómsmálaráðherra við annarri fyrirspurn Andrésar Inga að Landsréttur hafi snúið sakfellingu í sýknu eða mildað refsingu í 40% kynferðisbrotamála – 28 af 71 – á árunum 2018-2020. Þar af voru tíu sýknaðir í Landsrétti eftir sakfellingu í héraði, en aðeins var eitt dæmi um hið gagnstæða.

Nokkur umræða hefur verið um kröfur til sönnunarbyrði í málefnum af þessu tagi fyrir Landsrétti, en dómurinn virðist gera mun ríkari kröfur en héraðsdómar, eins og fram kom í úttekt Fréttablaðsins í upphafi árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert