Söknum Remy ansi mikið

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík tapaði stórt fyrir Grindavík í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti karla í körfubolta í kvöld. Með tapinu er lið Keflavíkur komið upp við vegginn fræga og verður að vinna á sunnudaginn þegar liðin mætast í fjórða sinn. 

Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var þó nokkuð brattur þrátt fyrir tapið. Mbl.is ræddi við Pétur sem hafði þetta að segja um leikinn:

„Við vorum að tapa fyrir hörkuliði. Það er lítið hægt að segja annað en að þeir spiluðu af krafti og áræðni í 40 mínútur og við náðum ekki að mæta þeim.“

Það vottaði fyrir hálfgerðu vonleysi í þriðja og fjórða leikhluta hjá leikmönnum Keflavíkur. Ertu sammála því?

„Ég las það ekki þannig í menn. Við söknum Remy [Martin] ansi mikið þegar leikirnir fara í svona hörku. Við erum kannski ekki með mikið af mönnum sem eru vanir að bera upp boltann í svona leikjum og gefa hann.

Síðan þegar menn eru orðnir þreyttir þá förum við að tapa boltanum og þeir nýta sér það. Ef einhver hefði verið heitur hjá okkur í kvöld þá hefði þessi leikur líklega farið aðeins öðruvísi, en það var bara enginn heitur hjá okkur,“ sagði hann.

Keflvíkingar eru komnir með bakið upp við vegg en eiga samt heimaleik eftir. Það er allt annað dæmi en að spila hér ekki satt?

„Jú vonandi. Ef Grindvíkingar mæta með svona leik þangað eins og þeir spiluðu í kvöld þá er ég ekki viss um að við eigum mikla möguleika en ef við mætum öðruvísi og mætum þeim af hörku þá gætum við reynt að snúa leiknum okkur í hag,“ sagði Pétur.

Hvað þarf til að endurtaka síðasta heimaleik, þ.e. að Keflavík vinni?

„Við vorum meira í takt í þeim leik allan tímann á meðan við duttum úr takti hér á allt of löngum köflum. Í þeim leik vorum við líka kannski að sanna að við gætum spilað án Remy. Við vorum búnir að því fyrir leikinn í kvöld.

Núna þegar það eru komnir tveir leikir síðan hann datt út þá verða menn að hugsa um eitthvað annað en hann og að hafa hann ekki. Síðan þarf ég að gera þá klára í leikinn og þeir þurfa að gera það líka sjálfir,“ sagði hann.

Þið ætlið auðvitað að koma þessu í fimm leikja seríu ekki satt?

„Það eina sem ég get lofað þér á sunnudag er að við munum leggja okkur fram í 40 mínútur. Hvort það sé svo nóg kemur bara í ljós. Ég veit að þessir strákar munu leggja sig 100% fram og þá verður niðurstaðan alltaf jákvæð fyrir okkur.

Síðan verður þetta kannski ein karfa til eða frá sem úrskurðar um hvort að niðurstaðan verði góð fyrir okkur eða ekki,“ sagði Pétur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert