„Ánægðir að vera komnir aftur á Akureyri“

Leikmenn KA fagna vel í dag.
Leikmenn KA fagna vel í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Jónasson kom kátur í viðtal eftir að hans menn í KA höfðu lagt HK að velli í jöfnum leik á Akureyri í dag. Leikurinn var fyrsti alvöruheimaleikur KA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta en fyrstu fjóra heimaleikina hafði KA þurft að spila á Dalvíkurvelli. 

Tvö-núll-sigur varð niðurstaðan en leikið var í sól og blíðu og miklum hita 

„Það var gott að koma hingað á okkar heimavöll og við erum ánægðir með að hafa landað sigri í okkar fyrsta heimaleik. Það var vel mætt og frábært veður og þrjú stig. Við erum sáttir við þetta.“ 

Hvernig var þetta lagt upp? Þið töpuðuð tveimur síðustu leikjum og væntanlega hefur eina markmiðið verið að vinna í dag. 

„Það var mjög mikilvægt. Við höfum bara tekið eitt stig í síðustu fjórum leikjum og þá skiptir mestu máli að fá stigin inn. Mér finnst við hafa verið að spila vel úti á vellinum í undanförnum leikjum. Mér fannst það ekki í dag. Mér fannst HK  hrós til þeirra  betri en við í fyrri hálfleik. Þeir spiluðu boltanum betur og gerðu margt vel. Við komumst svo yfir á flottu marki og á endanum voru það mörkin okkar sem gerðu gæfumuninn. Vissulega frábært að halda hreinu með nýja menn í vörninni. Við erum sáttir með það. Ég ætla ekki að vera barnalegur og segja að við höfum spilað vel úti á vellinum.“ 

Það er mikið rót á varnarlínunni frá því úr síðasta leik. Nýir menn og ný uppstilling. Dusan er kominn hægra megin í miðvörðinn eftir að hafa verið vinstra megin með Brynjari Inga og Mikkel Qvist kemur örvfættur í miðvörðinn vinstra megin. Þú ert sjálfur miðvörður og sérð væntanlega fram á að komast ekkert í liðið í sumar. 

Nú skellir Hallgrímur upp úr en segir svo: „Það sem skiptir nú mestu máli er að varnarmennirnir hafi spilað vel, hvort sem ég er í liðinu eða ekki. Það er líka langt í að ég verði klár,“ en Hallgrímur meiddist illa fyrir rúmu ári og var þá ákveðinn í að komast aftur á fótboltavöllinn með KA. 

„Það er bara jákvætt að Dusan er kominn hægra megin í vörnina. Nú eru þeir báðir á réttum fæti; Mikkel vinstra megin og Dusan hægra megin. Við erum rosalega ánægðir að hafa fengið Mikkel til baka. Hann þekkir okkur og við hann. Við gáfum honum smá tíma til að komast inn í þetta og hann var ekki með í leiknum gegn Fylki. Hann stóð sig mjög vel í dag.“ 

Þessi sigur kemur ykkur nær pakkanum sem er að elta Valsmenn. Má eitthvað spyrja um markmið svona þegar tímabilið er rétt hálfnað?

„Jájá. Markmiðið er að vera með í toppbaráttunni. Nú er orðið langt í efsta sætið eftir þessa fjóra leiki sem gáfu okkur eitt stig. Okkur finnst það rosalega rýr uppskera miðað við spilamennskuna. Við getum samt sjálfum okkur um kennt með því að klúðra vítum og dauðafærum, tapa leik þar sem við erum manni fleiri og svona. Nú erum við bara fyrst og fremst ánægðir að hafa unnið og ánægðir að vera komnir aftur á Akureyri. Þessi deild er þannig að við þurfum bara að hugsa um að ná inn stigum og þá eigum við góða möguleika í þessi efstu þrjú sæti sem eru spennandi“ sagði aðstoðarþjálfarinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert