Þrjú smit innanlands – öll í sóttkví

Frá skimun vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut.
Frá skimun vegna kórónuveirunnar við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og voru allir í sóttkví við greiningu, samkvæmt bráðabirgðatölum almannavarna. Eitt smit greindist á landamærum.

Tölur á Covid.is eru ekki uppfærðar um helgar og því hefur ekki verið gefið út hversu mörg sýni voru tekin í gær. 

Fimm smit greindust innanlands á fimmtudag og voru þau einnig öll í sóttkví. Þá greindist ekkert smit á landamærum. 

Á miðvikudag greindust tíu smit en sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu.

Reglugerð um sóttvarnaaðgerðir fellur úr gildi á miðvikudag

Fyrsta og öðru markmiði ríkisstjórnarinnar í afléttingaráætlun hvað bólusetningar varðar hefur verið náð. Annað markmiðið náðist á fimmtudag þegar 37,5% þjóðarinnar höfðu fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19. Afléttingaráætlunin gerir ráð fyrir 20 til 200 manna samkomutakmörkunum í byrjun maí. Sóttvarnalæknir sagðist í vikunni stefna á að skila tillögum um áframhaldandi aðgerðir til heilbrigðisráðherra nú um helgina en gildandi reglugerð um sóttvarnaaðgerðir fellur úr gildi á miðvikudag, 5. maí næstkomandi.

Forsætisráðherra sagði í samtali við blaðamann í gær að faraldurinn væri enn lúmskur en stjórnvöld væru bjartsýn. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert