Við óskum honum góðs gengis

Alexis Sánchez náði sér aldrei á strik með Manchester United.
Alexis Sánchez náði sér aldrei á strik með Manchester United. AFP

„Hann er góður leikmaður og við óskum honum góðs gengis,“ voru orð Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United þegar blaðamenn báðu hann um að staðfesta fregnir þess efnis að Alexis Sánchez væri endanlega á förum frá félaginu.

Sílemaðurinn hefur leikið undanfarið ár sem lánsmaður hjá Inter Mílanó á Ítalíu og hafa fjölmiðlar á Englandi sagt frá því í dag að hann muni ganga í raðir félagsins á frjálsri sölu og skrifa undir langtímasamning á morgun.

„Ég held að ég geti staðfest það, Alexis stóð sig vel hjá þeim og verður þar áfram,“ bætti Solskjær við í viðtali við BT Sport eftir að United tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum Evrópudeildarinnar með 2:1-sigri á LASK frá Austurríki á Old Trafford í kvöld.

Sánchez náði sér ekki á strik með United eft­ir fé­lags­skipti frá Arsenal 2018. Sánchez skoraði aðeins fimm mörk í 45 leikj­um með United, en hann var einn besti leikmaður Arsenal í ár­araðir áður en leiðin lá til Manchester. Spilaði hann 28 leiki með In­ter á leiktíðinni og skoraði fjög­ur mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert