Svíar unnu með 38 marka mun

Karen Knútsdóttir í baráttunni í leik Íslands gegn Svíþjóð fyrir …
Karen Knútsdóttir í baráttunni í leik Íslands gegn Svíþjóð fyrir nokkrum árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getumunurinn á milli sterkustu og veikustu liðanna á HM 2021 í handknattleik kvenna heldur áfram að gera vart við sig í formi sannkallaðra risasigra. Svíþjóð vann í dag Púertó Ríkó með 38 marka mun þar sem Nathalie Hagman skoraði 19 mörk.

Svíþjóð leiddi með 21 marki í hálfleik, 26:5, og vann svo síðari hálfleikinn með 17 mörkum, 22:5.

Lokatölur urðu því 48:10 og nokkuð ljóst að Púertó Ríkó á ekki mikið erindi á HM sem fer fram um þessar mundir á Spáni.

Óhætt er að segja að hægri hornakonan Hagman hafi farið á kostum í leiknum í dag þar sem hún skoraði sem áður segir hvorki fleiri né færri en 19 mörk.

Svíþjóð hefur nú unnið báða leiki sína í D-riðli með meira en 30 marka mun, en í fyrsta leiknum gegn Úsbekistan vannst 46:15 sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert