Hafnar því að hafa verið látinn gossa vegna vindlosunar

Marcelo (t.h.) í leik með Bordeaux á tímabilinu.
Marcelo (t.h.) í leik með Bordeaux á tímabilinu. AFP/Jean-Francois Monier

Knattspyrnumaðurinn Marcelo, miðvörður Bordeaux, hafnar því alfarið að hafa verið látinn fara frá Lyon vegna ófagmannlegrar hegðunar í búningsklefa liðsins, þar á meðal að leysa ítrekað vind og hlæja á óviðeigandi tímapunktum.

L’Equipe greindi frá því fyrr í vikunni að Marcelo hafi verið færður úr aðalliði Lyon niður í varaliðið, þar sem hann æfði og lék um skeið, áður en hann var svo seldur til Bordeaux í janúarglugganum vegna þessa.

Marcelo fann sig knúinn til þess að endurvekja twitteraðgang sinn til þess að svara fyrir þessar ásakanir.

„Þökk sé L‘Equipe sný ég aftur á twitter eftir langan tíma til þess að hafna öllum ásökununum. Blaðamennska nú til dags er grín!“ skrifaði hann. Um var að ræða fyrstu færslu hans á samfélagsmiðlinum í um eitt ár.

Í ágúst á síðasta ári hafði verið greint frá því að Marcelo hafi skellihlegið yfir ræðu Léo Dubois, fyrirliða Lyon, eftir stórt tap gegn Angers þar sem Marcelo skoraði til að mynda sjálfsmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert